Fyrir margt löngu var Víkverji staddur í samkvæmi í Winnipeg í Kanada þegar fyrsti snjór vetrarins féll. Með Víkverja voru meðal annars menn frá Afríku og vægast sagt hvítnuðu þeir af hræðslu enda höfðu þeir aldrei séð snjó fyrr.
Fyrir margt löngu var Víkverji staddur í samkvæmi í Winnipeg í Kanada þegar fyrsti snjór vetrarins féll. Með Víkverja voru meðal annars menn frá Afríku og vægast sagt hvítnuðu þeir af hræðslu enda höfðu þeir aldrei séð snjó fyrr. Þeir tóku samt gleði sína á ný eftir að hafa verið fullvissaðir um að þeir væru ekki í neinni hættu og kæmust örugglega heilir á húfi aftur til síns heima.
Þetta atvik kom upp í huga Víkverja þegar hann heyrði að 27 cm jafnfallinn snjór hefði verið í Winnipeg um liðna helgi og fólk í basli úti um alla borg. Henni er skipt upp í hreinsunarsvæði og liggur fyrir hvenær hvert svæði er hreinsað. Á meðan á hreinsun stendur er óheimilt að leggja bílum í viðkomandi svæði, þ.e. frá klukkan sjö að morgni til klukkan sjö að kvöldi. Fari fólk ekki að settum reglum eru bílarnir dregnir í burtu og eigendum gert að borga 150 dollara sekt, tæplega 20 þúsund krónur, en sektin fer niður í 75 dollara sé greitt innan ákveðins tíma.
Nær 500 bílar voru dregnir í burtu af hreinsunarsvæðum sl. mánudag en eigendur þeirra sluppu með skrekkinn. Ástæðan er sú að nú er unnið samkvæmt nýju skipulagi og stóð til að kynna það í gær, en það láðist bara að láta móður náttúru vita af því. Skipulagið hefur reyndar verið aðgengilegt á netinu en fólk leitar sér almennt ekki upplýsinga fyrr en á þarf að halda og vefurinn með upplýsingunum lá auk þess niðri um tíma sl. mánudag.