Evrópuráðið Frá fundi ráðsins í höfuðstöðvum þess í Strassborg. Til greina kemur að vísa tillögum stjórnlagaráðs til Feneyjanefndar ráðsins.
Evrópuráðið Frá fundi ráðsins í höfuðstöðvum þess í Strassborg. Til greina kemur að vísa tillögum stjórnlagaráðs til Feneyjanefndar ráðsins. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Skúli Hansen skulih@mbl.is Í skilabréfi sínu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar mælti lögfræðihópur, sem fór yfir tillögur stjórnlagaráðs, með því að við frekari meðferð málsins yrði leitað álits hjá erlendum sérfræðingum, þ.á m.

Fréttaskýring

Skúli Hansen

skulih@mbl.is

Í skilabréfi sínu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar mælti lögfræðihópur, sem fór yfir tillögur stjórnlagaráðs, með því að við frekari meðferð málsins yrði leitað álits hjá erlendum sérfræðingum, þ.á m. Feneyjanefnd Evrópuráðsins. Tveir fyrrverandi stjórnlagaráðsfulltrúar, Eiríkur Bergmann og Pawel Bartozek, hafa tekið undir þessa tillögu hópsins. Þá sagði Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í samtali við Morgunblaðið í fyrradag að til greina kæmi að afla álita erlendra sérfræðinga á tillögum stjórnlagaráðs ef slík álitsöflun rúmast innan tímaramma málsins.

Feneyjanefndin heitir raunar Evrópunefndin um lýðræði með lögum en er kennd við Feneyjar í ljósi þess að nefndin var stofnuð í borginni og fundar þar fjórum sinnum á ári. Nefndin er skipuð fulltrúum frá öllum aðildarríkjum Evrópuráðsins. Þá eiga Kirgistan, Síle, Suður-Kórea, Marokkó og Alsír einnig fulltrúa í nefndinni. Fulltrúar nefndarinnar eiga, samkvæmt stofnskrá hennar, að vera óháðir sérfræðingar sem eru kunnir á alþjóðasviði af störfum sínum við lýðræðislegar stofnanir eða af verkum sínum til framdráttar stjórnvísindum og lögum. Fulltrúi Íslands í nefndinni er Herdís Þorgeirsdóttir lögmaður.

Þríþætt starfsemi

Störf Feneyjanefndarinnar skiptast í þrennt. Í fyrsta lagi veitir nefndin ráðgjöf varðandi stjórnskipan, stjórnsýslu og réttarfar ríkja. Verkefni af þessu tagi geta borist ráðinu bæði af frumkvæði ríkjanna sjálfra eða þann veg að Evrópuráðsþingið og ráðherranefndin beini því til nefndarinnar að skoða tiltekið málefni viðkomandi ríkis.

Í öðru lagi sinnir nefndin ýmiss konar samanburðarverkefnum og athugunum tengdum þróun mannréttinda og lýðræðislegra stjórnarhátta á tilteknum sviðum en þessi verkefni geta bæði varðað einstaka hluta álfunnar sem og aðildarríkin í heild. Loks vinnur nefndin að eflingu upplýsingaskipta um starfsemi bæði stjórnlagadómstóla og annarra dómstóla, í þeim ríkjum sem hún hefur samskipti við, sem fara með stjórnskipulegt endurskoðunarvald.

Einungis ráðgefandi álit

„Það sem nefndin getur skoðað eru reglur um réttarríkið, skiptingu ríkisvaldsins og hvort þessi stjórnarskrá fylgi bestu stöðlum varðandi mannréttindi og svo framvegis,“ segir Maria Elvira Mendez Pinedo, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Að sögn Elviru er þó sumt sem nefndin getur ekki gert athugasemdir við. Nefnir hún þar sem dæmi að nefndin geti ekki gert athugasemdir við það hvort sé betra, lýðveldi eða konungsveldi, nú eða hvort vernda eigi dýr, svo eitthvað sé nefnt.

Aðspurð segir Elvira að Feneyjanefndin sé einungis ráðgefandi. „Þau hafa engin lagalega bindandi áhrif, því þetta eru innanríkismál og fullveldissjónarmið gilda í þjóðarétti,“ segir Elvira um álit nefndarinnar. Þá bendir hún á að um sé að ræða mjög góða ráðgjöf og að hún hafi velt því fyrir sér hvers vegna íslensk stjórnvöld hafi ekki leitað álits nefndarinnar á tillögum stjórnlagaráðs fyrr.

RÁÐGEFANDI ÁLITSGJÖF

Vinnuhópur gerir álit

Þegar óskað er eftir áliti Feneyjanefndarinnar á stjórnarskrá notast hún við þá vinnuaðferð að skipa vinnuhóp, en slíkir hópar eru einkum myndaðir af fulltrúum nefndarinnar, til þess að semja drög að áliti þess efnis hvort hinn lagalegi texti standist lýðræðiskröfur og hvernig hægt sé að bæta hann, samkvæmt upplýsingum á vef nefndarinnar. Því næst eru drögin rædd og loks samþykkt af ráðinu á allsherjarfundi en yfirleitt eru fulltrúar viðkomandi ríkis viðstaddir hann.

Þá segir einnig á vefsíðu nefndarinnar að álit hennar séu einungis ráðgefandi. Af þeim sökum sé það meginreglan að vinnuhópurinn heimsæki viðkomandi ríki og fundi þar með mismunandi stjórnmálaþátttakendum sem málinu tengjast í þeim tilgangi að tryggja að sýn vinnuhópsins á málið sé sem hlutlægust.