Bjarni Randver Sigurvinsson
Bjarni Randver Sigurvinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Bjarna Randver Sigurvinsson og Pétur Pétursson: "Hér á landi voru það leiðtogar evangelísk-lúthersku kirkjunnar sem beittu sér fyrir upplýsingarstefnunni og mynduðu framvarðasveit hennar."

Styrkur stjórnarskrártillagna stjórnlagaráðs liggur í þeirri samstöðu sem náðist innan þess um nútímalega útfærslu réttindamála og manngildishugsjóna. Þetta verður þó ekki sagt um afstöðu ráðsins til þjóðkirkjunnar sem nú virðist bögglast fyrir ýmsum í ljósi þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Það er ljóst að meirihlutaafstaða ráðsins getur ekki verið grundvöllur að þróun íslensks trúmálaréttar. Ráðið tók ekki mið af menningarlegum og pólitískum forsendum slíks réttar heldur studdist það við úreltar hugmyndir ákveðinna menntamannahópa sem gegnsýrðir eru af svonefndri veraldarhyggju (sekúlarisma) sem rekja má til frönsku upplýsingarinnar og byltingarinnar miklu í Frakklandi 1789. Til að sýna fram á hve varhugavert er að innleiða slíka veraldarhyggju í íslenskan trúmálarétt má benda á að upplýsingarstefnan og nútímavæðing franska samfélagsins byggðist á baráttunni gegn völdum og áhrifum rómversk-kaþólsku kirkjunnar á sviði fræðslumála og stjórnmála. Upplýsingin og kristindómurinn voru hins vegar ekki slíkar andstæður í hinum þýska menningarheimi sem danska ríkið var hluti af. Á Íslandi kemur upplýsingin og nútímahugsun því fram á allt öðrum forsendum en í Frakklandi. Hér á landi voru það leiðtogar evangelísk-lúthersku kirkjunnar sem beittu sér fyrir upplýsingarstefnunni og mynduðu framvarðasveit hennar en þar má fyrsta nefna Hannes Finnsson, biskup í Skálholti, og Magnús Stephensen, sálmaskáld og útgáfustjóra fjölda rita um trúmál og framfaramál. Það er m.a. þess vegna sem evangelísk-lúthersk kirkja er þjóðkirkja á Íslandi og þess vegna hefur ríkisvaldið stutt hana og verndað.

Trúarbragðafélagsfræðingar hafa bent á að kenningar um að nútímalegt samfélag sé að afhelgast standist ekki skoðun þó svo að hamrað hafi verið á þessu af hálfu margra félagsvísindamanna og ýmissa stjórnmálastefna á 19. og 20. öld. Ef við lítum á málin út frá alþjóðastjórnmálum í dag eru það aðeins þeir sem velja að grafa höfuðið í sandinn sem geta haldið því fram að trúarstefnur og trúarhugmyndir skipti minna máli í dag en t.d. fyrir hundrað árum. Margt bendir til að vægi trúarhreyfinga og trúarhugmynda sé þvert á móti að aukast.

Stjórnlagaráð virðist hafa gengið út frá þeirri forsendu að þjóðkirkja í opinberu rými sé úrelt fyrirbrigði. Andúð sumra stjórnlagaráðsmanna á kirkju, kristindómi og öðrum trúarbrögðum kann að hafa orðið til þess að ráðið skilaði frá sér harla óljósum tillögum um kirkjumál þar sem þó var horfið frá frjálslyndu þjóðkirkjufyrirkomulagi. Ekki nægir að nefna sem röksemd að aðskilnaður ríkis og kirkju hafi átt sér stað í ýmsum öðrum löndum því að færa má rök fyrir því að hvergi sé um raunverulegan aðskilnað að ræða heldur aðeins mismunandi form á tengslum. Aðskilnaðarorðræðan endurspeglar fyrst og fremst hagsmunabaráttu þeirra sem ýmist vilja koma í veg fyrir eftirlit hins opinbera varðandi kenningu, skipulag eða fjármál trúarstofnana eða vilja þrengja sem mest að trúarstofnunum í opinberu rými.

Grundvöllur íslensks trúmálaréttar á 21. öld verður þvert á móti að ganga út frá fræðilegri greiningu á þjóðfélaginu, ríkjandi hefðum og lagaþróun á Íslandi á 20. öld. Þar ber að sjálfsögðu að rannsaka íslensku stjórnarskrána í pólitísku, lagalegu og menningarsögulegu samhengi. Tvær grunnstoðir trúmálaréttarins, trúfrelsi og þjóðkirkja, koma fram á sjónarsviðið í einu og sama réttarskjalinu, nefnilega íslensku stjórnarskránni frá 1874. Jafnréttishugsjónin eflist svo jafnt og þétt innan kirkju og utan eins og fram kemur m.a. í yfirlýsingum núverandi biskups Agnesar Sigurðardóttur um að tryggja beri réttindi annarra skráðra trúfélaga í stjórnarskrá til jafns við þjóðkirkju.

Trúfrelsið er forsenda þeirra kirkjuskipanar sem þróast hefur í landinu frá því að Ísland fékk eigin stjórnarskrá. Þar sem stjórnlagaráðinu vannst ekki tími til að leggja grunn að íslenskum trúmálarétti fyrir 21. öld verður að taka á því máli frá grunni eins og niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar nýafstöðnu um þjóðkirkjuákvæðið sýnir. Þar kemur til kasta Alþingis en ekki væri úr vegi að Guðfræðistofnun HÍ yrði fengið það verkefni.

Um skyldur Alþingis gagnvart núverandi kirkjuskipan sagði Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, í fyrirlestri sem hann hélt í Skálholti árið 2009: „Þjóðkirkjuskipulagið er hluti af norrænni menningarhefð. Á umbrotatímum í sögu þjóðarinnar mæla skynsemisrök með því að þeim lýðræðislegu manngildishugsjónum, sem sú hefð er sprottin upp af, verði ekki raskað með því að breyta þeirri skipan mála.“ (Þjóðkirkjan og lýðræðið, bls. 21.) Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um tillögur stjórnlagaráðs sýna að meirihluti íslensku þjóðarinnar er sama sinnis og ráðherrann fyrrverandi, núverandi biskup og lýðræðislega kjörið þing þjóðkirkjunnar.

Bjarni er stundakennari við HÍ og Pétur prófessor.

Höf.: Bjarna Randver Sigurvinsson, Pétur Pétursson