Í dag er ekki aðeins dagur íslenskrar tungu heldur líka afmælisdagur Bjarka Sigurðssonar, fyrrverandi landsliðsmanns í handbolta, þjálfara og sölufulltrúa hjá Jónum Transport. Bjarki er 45 ára í dag og heldur upp á tímamótin í faðmi eiginkonunnar og fjögurra barna þeirra með góðri máltíð og tónlist í kvöld. „Þegar við vorum í Noregi byrjuðum við á því að spila jólalögin á þessum degi og höfum haldið þeim sið síðan,“ segir Bjarki.
„Þetta hefur verið stór þáttur í lífinu,“ segir Bjarki um handboltann og bætir við að fjölskyldan sé á fullu í íþróttum. „Tíminn saman er því óhjákvæmilega minni en hjá meðalfjölskyldum.“
Bjarki hefur lengi verið áberandi sem leikmaður og þjálfari. Víkingurinn spilaði til dæmis vel á þriðja hundrað landsleiki, var atvinnumaður með norska liðinu Drammen 1997-1998 og byrjaði að þjálfa meistaraflokk hjá Aftureldingu um aldamótin en áður hafði hann þjálfað yngri flokka hjá Víkingi. Hann þjálfar nú ÍR-inga þriðja keppnistímabilið í röð. „Ég er mjög sáttur,“ segir hann um gengi nýliðanna í úrvalsdeildinni til þessa.
Bjarki var með fljótari mönnum en segir að helsti munurinn nú og þegar hann var að spila sé aukinn hraði. Betur sé hlúð að leikmönnum en áður og menn meðvitaðri um mikilvægi hvíldar og mataræðis. „Lið eldri leikmanna gætu samt haft betur.“ steinthor@mbl.is