Skorar Jón Þorbjörn Jóhannsson, línumaður Hauka, er hér að skora eitt fjögurra marka sinna gegn Fram í Safamýrinni í gærkvöld.
Skorar Jón Þorbjörn Jóhannsson, línumaður Hauka, er hér að skora eitt fjögurra marka sinna gegn Fram í Safamýrinni í gærkvöld. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Safamýri Stefán Stefánsson ste@mbl.is Bikarmeistarar Hauka sluppu með herkjum úr Safamýrinni í gærkvöldi í 21:20 þegar þeir sóttu vængbrotið lið Fram heim.

Í Safamýri

Stefán Stefánsson

ste@mbl.is

Bikarmeistarar Hauka sluppu með herkjum úr Safamýrinni í gærkvöldi í 21:20 þegar þeir sóttu vængbrotið lið Fram heim. Nokkra lykilmenn vantaði í leikmannahóp Fram auk þess sem Einar Jónsson þjálfari var í banni en ungu guttarnir nýttu tækifærið til hins ýtrasta, gáfu allt sitt í leikinn og áttu meira skilið.

Í upphitun fyrir leikinn litu leikmenn beggja liða yfir völlinn og skoðuðu mótherja sína en með gerólíkum hugsunarhætti. Þrautreyndir Haukar sáu að Sigurður Eggertsson og Róbert Aron Hostert voru ekki með og að stórskyttan Jóhann Gunnar Einarsson yrði tæplega með. Framarar sáu líka að Haukar voru með fullmannað lið þó Gísli Jón Þórisson væri frá vegna meiðsla en sáu líka að þetta væri þeirra tækifæri til að sýna getu sína.

Framvinda leiksins var í samræmi við það. Eflaust hafa Hafnfirðingar ekki ætlað sér að detta í neitt vanmat og þeir náðu 4:1 forystu með góðri vörn og vænlegum sóknarleik en urðu værukærir og Fram komst inn í leikinn. Haukar tóku sig á en þurftu miklu meira til að hrista unga Framara af sér en munurinn varð aldrei mikill. Þegar leið á síðari hálfleik mátti búast við að reynslan skilaði Haukum einhverju en þess í stað efldust Framarar og þótt þeim tækist ekki að jafna vantaði lítið upp á. Til að bæta gráu ofan á svart varð varnarjaxlinn Ægir Hrafn Jónsson að fara út af vegna meiðsla og skömmu síðar fóru Þorri Björn Gunnarsson fyrirliði og Magnús Gunnar Erlendsson markvörður þar á eftir. Þar við bættist að þriðja og fjórða víti Fram fóru forgörðum.

Engin uppgjöf í þeim ungu

Uppgjöf hjá Fram? Heldur betur ekki og Haukar þökkuðu sínum sæla þegar flautað var til leiksloka á meðan Framarar voru alveg brjálaðir yfir að missa af stiginu. „Við hinir yngri vildum sanna að við eigum sæti í liðinu og þetta sýnir hvað við erum með mikla breidd auk þess sem þetta var góð reynsla,“ sagði hinn 18 ára Elías Bóasson, sem fór á kostum hjá Fram og skoraði 5 mörk. „Við hugsuðum fyrir leikinn að við værum með þrjá byrjunarliðsmenn fyrir utan en hefðum engu að tapa og ætluðum að hafa gaman af leiknum. Við fórum vel yfir leik Hauka á myndbandsfundinum og vorum með okkar leik á hreinu. Ef við hefðum skorað úr vítunum okkar hefðum við unnið þennan leik.“ Auk hans voru Ólafur Jóhann Magnússon og Stefán Darri Þórsson góðir þó liðið í heild hafi gefið allt sitt í leikinn.

Fram – Haukar 20:21

Fram-húsið, úrvalsdeild karla, N1 deildin, fimmtudaginn 15. nóvember 2012.

Gangur leiksins : 0:1, 1:1, 1:4, 2:5, 4:5, 6:7, 7:10, 8:10 , 9:10, 10:13, 12:16, 15:16, 16:18, 18:19, 19:21, 20:21 .

Mörk Fram : Elías Bóasson 5, Ólafur Magnússon 5, Stefán Darri Þórsson 3, Þorri Björn Gunnarsson 3, Haraldur Þorvarðarson 3/2, Sigurður Örn Þorsteinsson 1.

Varin skot : Magnús Gunnar Erlendsson 11 (þar af 1 til mótherja), Björn Viðar Björnsson 3 (þar af 2 til mótherja).

Utan vallar : 2 mínútur.

Mörk Hauka : Tjörvi Þorgeirsson 4, Jón Þorbjörn Jóhannsson 4, Stefán Rafn Sigurmannsson 4/1, Freyr Brynjarsson 3, Árni Steinn Steinþórsson 2, Gísli Kristjánsson 1, Gylfi Gylfason 1, Elías Már Halldórsson 1, Adam Haukur Baumruk 1.

Varin skot : Aron Rafn Eðvarðsson 12/3 (þar af 9 til mótherja), Einar Ólafur Vilmundarson 2/1.

Utan vallar : 6 mínútur.

Dómarar : Svavar Pétursson og Arnar Sigurjónsson.

Áhorfendur : Um 270.