Eftir Hall Hallsson, Jón Kristin Snæhólm, Rúnar Fjeldsted, Skafta Harðarson, Svan K. Grjetarsson, Viggó E. Hilmarsson og Þorstein Pétursson: "Hafa hagsmunasamtök, sem veita fé til stofnana Háskóla Íslands, áhrif á akademíska umfjöllun Háskólans og stofnana hans?"

Samtökin Íslenskt þjóðráð – IceWise efna á mánudag til málþings um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Breska þingkonan Kate Hoey, fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Tonys Blairs, kemur hingað til lands til þess að ræða Evrópumál. Kate Hoey er þingmaður Vauxhall í London fyrir Verkamannaflokkinn. Hún er frá N-Írlandi, hefur setið á þingi frá 1989 og er afar skeleggur fulltrúi kvenna í breska þinginu. Kate Hoey vill efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB í Bretlandi. Hún fjallar um reynslu Breta af Evrópuaðild sem hlýtur að vera áhugavert sjónarhorn fyrir landsmenn, jafnt Evrópusinna sem fullveldissinna. Erindi sitt kallar frú Hoey: The Dangers of Joining the EU .

Ásamt Kate Hoey flytja erindi tveir undirritaðra, Hallur Hallsson og Jón Kristinn Snæhólm. Erindi Halls nefnist: Ísland á ný á evrópsku áhrifasvæði og erindi Jóns Kristins nefnist: Sjávarútvegsstefna ESB og byggist á mastersritgerð frá Edinborgarháskóla. Fundarstjóri verður Skafti Harðarson.

Alþjóðamálastofnun neitar samstarfi

Við, forsvarsmenn Íslensks þjóðráðs, erum stoltir að fá svo verðugan og glæsilegan fulltrúa frá Bretlandi. Við leituðum til Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, AHÍ, um samstarf en stofnunin kveðst stuðla að „...upplýstri umræðu meðal fræðimanna, almennings og annarra aðila, sem láta sig íslensk utanríkismál og alþjóðamál varða“. Framkvæmdastjóri Alþjóðamálastofnunar tók tillögunni vel og beindi erindinu til stjórnar samtakanna.

Stjórn Alþjóðamálastofnunar skipa sjö manns, fjórir prófessorar ásamt Auðuni Atlasyni, utanríkisráðuneytinu, Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, og Jóni Steindóri Valdimarssyni frá Samtökum iðnaðarins, SI. Stjórnin hafnaði samstarfi um málþingið þrátt fyrir yfirlýstan ásetning um að stuðla að „upplýstri umræðu“ og að „efla þekkingu“.

Spurningar til rektors HÍ

Í ljósi þessa vill Þjóðráð koma á framfæri nokkrum spurningum, fyrst til Kristínar Ingólfsdóttur rektors sem undirritar samþykktir AHÍ:

1. Hve háa styrki þiggur Háskóli Íslands frá stjórnvöldum, ASÍ og SI vegna Alþjóðamálastofnunar?

2. Á heimasíðu má lesa að AHÍ er ætlað að stuðla að „...upplýstri umræðu ...þverfaglegu samstarfi... þverfaglegum rannsóknum... fagmannlegum vinnubrögðum og trúverðugleika“. Er synjun stjórnar í samræmi við markmið Háskóla Íslands og Alþjóðamálastofnunar?

3. Er eðlilegt að hagsmunasamtök eigi fulltrúa í stjórn stofnunar sem kennir sig við fagmennsku?

4. Hafa hagsmunasamtök, sem veita fé til stofnana Háskóla Íslands, áhrif á akademíska umfjöllun Háskóla Íslands og stofnana hans?

5. Var synjun stjórnar AHÍ einróma?

Spurningar til SI og ASÍ

Í nýlegri könnun meðal aðildarfélaga SI kemur fram að 68,8% fyrirtækja innan SI eru á móti aðild Íslands að ESB. Innan vébanda ASÍ eru um 100 þúsund launþegar. Í nýrri könnun kemur fram að meir en sex af hverjum tíu landsmönnum vilja afturkalla umsókn um aðild að ESB. Við spyrjum stjórnir SI og ASÍ:

1. Hvers vegna sitja fulltrúar SI og ASÍ í stjórn Alþjóðamálastofnunar HÍ?

2. Hafa fulltrúar stjórnar SI og ASÍ fyrirmæli um að hafna sjónarmiðum fullveldissinna og beita sér fyrir umræðu í þágu Evrópuaðildar?

3. Er eðlilegt að samtök eins og SI og ASÍ skipi ákafa Evrópusinna í stjórn stofnunar sem vill kenna sig við hlutlægni og fagmennsku en er í raun áróðursstofa?

Spurningar til ráðuneytisstjóra

Þjóðin þekkir vel skoðanir eldhugans Össurar Skarphéðinssonar til Evrópuaðildar. Hins vegar á stjórnsýslan að vera hlutlæg og hlutlaus. Stjórn Þjóðráðs beinir eftirfarandi spurningu til Einars Gunnarssonar, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins:

1. Hvers vegna situr fulltrúi ráðuneytisins í stjórn Alþjóðamálastofnunar HÍ?

2. Er embættismönnum utanríkisráðuneytisins uppálagt að hindra umræðu sem ekki er þóknanleg yfirlýstri stefnu ríkisstjórnar Íslands um aðild að Evrópusambandinu?

3. Er eðlilegt að stjórnvöld, sem vilja stefna Íslandi inn í ESB, sitji í stjórn stofnunar sem kennir sig við hlutlægni og fagmennsku en er í raun áróðursstofa?

Til upplýsingar um Íslenskt þjóðráð bendum við á heimasíðu okkar: www.icewise.is. Stjórn Þjóðráðs væntir skjótra og greiðra svara.

Höfundar skipa stjórn Þjóðráðs.

Höf.: Hall Hallsson, Jón Kristin Snæhólm, Rúnar Fjeldsted, Skafta Harðarson, Svan K. Grjetarsson, Viggó E. Hilmarsson, Þorstein Pétursson