Þorkell Máni Pétursson Annar stjórnenda Harmageddon.
Þorkell Máni Pétursson Annar stjórnenda Harmageddon. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Í mínum huga sinnir útvarpsþátturinn Harmageddon á X-inu 977 áhugaverðu hlutverki í dægurmálaumræðu í útvarpi.

Í mínum huga sinnir útvarpsþátturinn Harmageddon á X-inu 977 áhugaverðu hlutverki í dægurmálaumræðu í útvarpi. Svo virðist sem þáttastjórnendurnir Frosti og Máni eigi auðveldara með að hjóla í málin með beinskeyttum hætti en aðrir útvarpsþáttastjórnendur. Fyrir vikið komast þeir oftar en ekki nær kjarna málsins en kollegar þeirra.

Lykillinn að vel heppnuðum umræðum finnst mér vera hinar hispurslausu spurningar sem þeir eru óhræddir við að láta dynja á viðmælendum. Á stundum geta þær hljómað einfeldningslegar eða hlutdrægar, en oft virkar sú aðferð þeirra vel til þess að skapa líflegar umræður sem leiða hlustandann nær kjarna málsins.

Vissulega eru þeir félagar gjarnan nokkuð einstrengingslegir í skoðunum og eiga það til að halda að þeir gangi um huldir hjúpi sannleikans. En jafnframt eru þeir opnir fyrir þeim möguleika að þeir gætu haft rangt fyrir sér, eða í það minnsta að sjónarmiðin séu fleiri en eitt og þeir viðurkenna það. Sá eiginleiki er sjaldgæfur í hinni svokölluðu umræðu – á tíðum þreyttu umræðu leyfi ég mér að bæta við.

Viðar Guðjónsson

Höf.: Viðar Guðjónsson