Alþingi Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Alþingi Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. — Morgunblaðið/Ómar
Hörður Ægisson hordur@mbl.

Hörður Ægisson

hordur@mbl.is

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir það „engan veginn ásættanlegt“ að Alþingi muni sitja hjá og „eftirláta það einum manni [seðlabankastjóra]“ hvernig útgreiðslum úr þrotabúum föllnu bankanna verði háttað.

„Það er algjörlega skýlaus krafa að þingið verði ekki bara upplýst heldur verði haft með í ráðum þegar búið er um hnútana í svona miklu hagsmunamáli“ og hafi um það lokasvar hvernig málum verði háttað, sagði Bjarni í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær.

Fram kom í svari Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, við fyrirspurn Bjarna hver aðkoma þingsins yrði að þessu máli að mikilvægt væri að farið væri skynsamlega í afnám gjaldeyrishafta og útgreiðslur úr þrotabúunum. „En ég held að við höfum alveg tök á þessu máli,“ sagði Jóhanna og vísaði til þess að það væri í höndum Seðlabankans að setja sérstakar reglur um hvernig útgreiðslum verði háttað. Hún sagðist þó sammála því að þingið þyrfti „að fylgjast vel með ferlinu.“

Bjarni var ekki sáttur við svör forsætisráðherra og sagðist hafa „verulega miklar áhyggjur“ af afstöðu hennar í þessu máli og benti á að það væri óásættanlegt að þingið myndi einungis „sitja hjá og sætta sig við að fylgjast með“ í jafn stóru hagsmunamáli þjóðarinnar þar sem um væri að ræða „útgreiðslur gjaldeyris upp á hundruð milljarða“.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, gaf ennfremur lítið fyrir svör fjármála- og efnahagsráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, um hver væri staðan í viðræðum Seðlabankans og slitastjórna þrotabúanna. „Ekki er hægt að fá upplýsingar um það hver hefur umboð til slíkra viðræðna og hvort viðræður standa yfir,“ sagði Sigmundur. Hann hvatti forseta Alþingis til að fylgja málinu eftir.