Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
„Að margra áliti er Wadada Leo Smith einn mikilvægasti tónlistarmaður samtímans,“ segir Örn Þórisson um jazztrompetleikarann og tónskáldið sem heldur tónleika í Kaldalóni í Hörpu á sunnudaginn, 18. nóvember, kl. 20 með þeim Skúla Sverrissyni bassaleikara og trommuleikurunum Matthíasi M D Hemstock og Magnúsi Trygvasyni Eliassen.
„Hann fer nýjar leiðir í tónlistarsköpun sem einkennist af óheftu ímyndunarafli og djúpum sköpunarkrafti. Trompetleikur hans rekur ættir sínar til Louis Armstrongs, Dizzy Gillespie og að sjálfsögðu Miles Davis, en líklega hefur Wadada í sínum fyrstu verkum fyrir 40 árum, ásamt Don Cherry og Lester Bowie, rutt brautina og haft mest áhrif á framúrstefnutrompetleik síðustu áratuga,“ bætir Örn við.
Leitandi
Smith er einn fremsti djasstrompetleikari samtímans og hefur hlotið mikið lof fyrir tónsmíðar sínar sem og viðurkenningar. Hann er talinn til brautryðjenda í bandarískum nútímadjassi og þekktur af leit sinni að ólíkum túlkunarleiðum í djassinum. Tónlistarferill Smiths spannar rúma hálfa öld en Smith varð sjötugur í fyrra. Hann hefur komið til Íslands fjórum sinnum áður, fyrst fyrir 30 árum á vegum Jazzvakningar og hafa margir íslenskir tónlistarmenn unnið með honum, m.a. Þorsteinn Magnússon, Hilmar Jensson, Pétur Grétarsson og Skúli Sverrisson en Skúli hefur leikið á rafbassa í hljómsveit Smiths, Organic, til nokkurra ára. Þá hefur Smith samið verk fyrir hina ýmsu flytjendur og verk hans verið flutt af þekktum hljómsveitum, m.a. Kronos-kvartettinum.Smith hefur verið ötull við hljómplötuútgáfu, gefið út á fimmta tug platna og í vor sendi hann frá sér fjögurra platna kassa, Ten Freedom Summers , með verkum sem tengjast frelsisbaráttu þeldökkra í Bandaríkjunum. Þar blandar hann saman djasstónlist og nútímatónlist með sínum einstaka hætti og hefur verkið hlotið mikið lof gagnrýnenda. Smith gegnir stöðu prófessors við California Institute of the Arts, CalArts, stýrir þar meistaranámi í afrísk-amerískri spunatónlist. Þar þekkir hann vel til, hefur rannsakað tónlistarhefðir í Evrópu, Afríku, Asíu og Ameríku og hefur þróað sérstakt nótnakerfi sem hann nefnir Ankhrasmation.
Tilraunakennt og kraftmikið
En við hverju mega tónleikagestir búast á sunnudaginn?„Í Hörpu má búast við að Wadada og félagar leiki tónlist sem hann hefur samið fyrir Organic-sveitina. Þetta er tilraunakennd tónlist með kraftmiklu bíti og skapandi sólóum. Wadada hefur gefið út marga dúetta með trommuleikurum, m.a. Jack DeJohnette, Ed Blackwell, Gunter Sommer og Louis Moholo-Moholo og því má gera ráð fyrir að trommur og trompet verði áberandi. Þeir Skúli og Wadada hafa líka lengi leitað að tækifæri til að vinna saman dúetta og má búast við þeir leiki tveir saman nýtt efni,“ segir Örn.
Smith mun á morgun halda masterclass fyrir nemendur Listaháskóla Íslands og Tónlistarskóla FÍH í húsi FÍH við Rauðgerði, veita leiðsögn og ræða um tónlist sína, tónsmíðar, spuna og hlutverk og stöðu tónlistarmannsins í nútímanum. Heimsókn Smiths er samtarfsverkefni Jazzhátíðar Reykjavíkur og sendiráðs Bandaríkjanna í Reykjavík. Miðasala á tónleikana fer fram í Hörpu og á vefnum harpa.is.