Snúið Svavar var sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness fyrir ári.
Snúið Svavar var sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness fyrir ári. — Morgunblaðið/Sigurgeir S
Hæstiréttur dæmdi í gær Svavar Halldórsson, fréttamann RÚV, til að greiða athafnamanninum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni þrjú hundruð þúsund krónur í miskabætur vegna ummæla sem birtust í aðalfréttatíma RÚV.

Hæstiréttur dæmdi í gær Svavar Halldórsson, fréttamann RÚV, til að greiða athafnamanninum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni þrjú hundruð þúsund krónur í miskabætur vegna ummæla sem birtust í aðalfréttatíma RÚV. Hæstiréttur sneri þar með sýknudómi Héraðsdóms Reykjaness við en Svavari var einnig gert að greiða Jóni Ásgeiri eina milljón króna í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

„Ég veit ekki hvað það er með mig en mér líður ekki eins og glæpamanni. Ég veit að fréttin er sönn, ég hafði afskaplega öruggar heimildir og fékk að sjá pappíra sem staðfesta allt saman,“ sagði Svavar við mbl.is í gær.

Málið snerist um texta sem Svavar las í fréttatíma RÚV, þar sem því var m.a. haldið fram að yfirvöld hefðu undir höndum gögn sem bentu til þess að Pálmi Haraldsson, Jón Ásgeir og Hannes Smárason hefðu skipulagt svokallaða Panama-fléttu.

„Þetta er furðulegur dómur,“ sagði Svavar í gær. „Jón Ásgeir sýndi ekki fram á að þessi tilteknu ummæli væru ósönn og mér var stillt upp við vegg þannig að ég átti óhægt um vik að sanna þau. Nema þá að upplýsa um heimildarmenn mína,“ sagði hann.

RÚV greiði kostnaðinn

Svavar sagði merkilegt að innanhúsreglur Ríkisútvarpsins væru orðnar forsendur í hæstaréttardómum en í dóminum sagði m.a. að Svavar hefði ekki sýnt fram á að hann hefði við vinnslu fréttarinnar leitað eftir upplýsingum frá Jóni Ásgeiri. „Og allir blaðamenn á Íslandi vita að maður tekur ekki upp símann og hringir í Jón Ásgeir,“ sagði Svavar.

Hann sagði RÚV hafa greitt allan lögfræðikostnað og að hann gerði ráð fyrir að RÚV myndi standa á bak við hann í þessu máli hér eftir sem hingað til.