Fjölhæfur Heiðar æfir karate, syngur í kór og setur saman reiðhjól.
Fjölhæfur Heiðar æfir karate, syngur í kór og setur saman reiðhjól. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Karatekappinn Heiðar Benediktsson náði gull-, silfur og bronsverðlaunum á Gautaborg Open-mótinu nýverið. Heiðar hefur æft karate síðan hann var sjö ára og segist ætíð fara á mót með því hugarfari að vinna til verðlauna.

María Ólafsdóttir

maria@mbl.is

Karatekappinn og menntaskólaneminn Heiðar Benediktsson náði fyrr í mánuðinum í gullverðlaun, silfurverðlaun og þrenn bronsverðlaun á Gautaborg Open-mótinu. Heiðar hefur æft karate síðan hann var sjö ára gamall og er með svarta beltið en hann iðkar svokallað shotokan-karate.

Notar góðu tilfinningarnar til að sannfæra hugann

„Markmiðið er alltaf að ná fyrsta sæti í öllu og í það minnsta að ná einhverjum verðlaunum. Ég hef farið tvisvar á Norðurlandameistaramót og lent þar í öðru og þriðja sæti. Það er gott að eiga tilfinningar frá því að hafa unnið mót innra með sér svo og góðar tilfinningar fyrir utan íþróttina því þær getur maður notað til að sannfæra hugann um að maður sé bestur. Slíkur hugsanagangur stjórnar líkamanum á ákveðinn hátt þannig að mér líður vel með tæknina sem ég beiti og þá framkvæmir líkaminn tæknina náttúrulega,“ segir Heiðar.

Í keppnum er keppt í kata og kumite. Heiðar er í landsliðinu í kata en keppir einnig í kumite. Í kumite er barist á móti andstæðingi en í kata er ákveðin tækni sýnd í samfelldri runu með flæði, styrk, læsingu og snerpu.

Í Svíþjóð keppti Heiðar í fimm flokkum þar af fjórum í kata og einum í kumite. Karateþjálfun er þannig uppbyggð að fyrst eru kenndar einfaldar tækniæfingar en ótal margar slíkar eru til. Þegar tæknin er komin á hreint þarf síðan að læra að beita henni á ákveðinn hátt á móti andstæðingi.

Agi og sjálfsstjórn

Heiðar byrjaði að æfa karate hjá Breiðabliki en flutti til Danmerkur með fjölskyldu sinni þegar hann var níu ára gamall og hélt áfram að æfa þar. Hann fékk góðan þjálfara í Danmörku sem hefur m.a. komið til Íslands til að þjálfa landsliðið í karate.

Heiðar byrjaði snemma að keppa hér heima en var hann þá fyrst með gula beltið. En í Danmörku er það þannig að aðeins þeir bestu í félaginu fá að keppa. Það tók Heiðar þau þrjú ár sem hann bjó í Danmörku að komast í þann hóp og segist hann hafa öðlast góða karatereynslu við það. Hann náði þó að keppa á einu móti úti og hélt síðan áfram að æfa og keppa með Breiðabliki þegar hann kom heim aftur. Heiðar hefur verið með svarta beltið frá árinu 2009.

„Karate er mjög huglægt og þjálfar mikið aga og sjálfsstjórn. Það hjálpar huganum að einbeita sér að einhverju ákveðnu. Ég er aldrei stressaður heldur bara rólegur í öllu sem ég geri. Þegar ég fer á mót mæti ég alveg rólegur en þegar ég er kominn í gallann kveiki ég á huganum og hugsa þá bara um að nú sé ég að fara í keppni og verði að berjast. Maður þjálfar vissa tækni til að geta kveikt og slökkt svona á huganum til skiptis,“ segir Heiðar.

Vinsæl íþrótt á Íslandi

Hægt er að æfa karate í nokkuð mörgum félögum hérlendis og eru þrjár mismunandi tegundir af karate æfðar hér. Algengt er shotokan-karate sem Heiðar stundar og það er æft hjá Breiðabliki og Þórshamri en fjöldi annarra íþróttafélaga býður einnig karatekennslu. Heiðar segir að svo virðist sem karate sé að verða sífellt vinsælla.

Þjálfari Heiðars er Helgi Jóhannesson sem hann segir vera eina af sína helstu fyrirmyndum í karate, en Helgi er með hæsta stig Evrópskra- dómararéttinda og hefur oft verið yfirdómari á þeim mótum sem Heiðar hefur keppt á bæði hérlendis og erlendis. Hann segir það skapa ákveðið aðhald að hafa ætíð sama þjálfara um leið sé hentugt að safna að sér tækni frá öðrum þjálfurum. Aðal atriðið sé þó að finna þá tækni sem henti hverjum og einum. Hingað koma reglulega erlendir þjálfarar og halda æfingabúðir og það veitir aukna víðsýni. Stærstu mótin í karate eru haldin í Svíþjóð en framundan er þriðja Norðurlandameistaramótið hjá Heiðari í Noregi á næsta ári og opið mót í Malmö næsta vor. Hann stefnir einnig að því að komast á Evrópumeistaramót árið 2015.

Bíla- og tækniáhugamaður

Nóg er að gera hjá Heiðari fyrir utan karateiðkun en hann vinnur í þríþrautarversluninni TRI við Suðurlandsbraut við að setja saman reiðhjól. Hann er áhugamaður um tækni og stefnir á að fara í vélaverkfræði í framtíðinni.

Íþróttaáhugann á Heiðar ekki langt að sækja en móðir hans Ásdís Kristjánsdóttir lauk nýverið Járnkarlinum á Havaí. Segist Heiðar hafa fengið metnaðinn og þrautseigjuna frá móður sinni og líti mjög upp til hennar. Aðrir fjölskyldumeðlimir eru einnig íþróttalega sinnaðir og hjólar og hleypur pabbi hans t.d. mikið.

Heiðar er einnig í Kvennaskólakórnum en til að hafa daginn vel skipulagðan heldur hann utan um allt sem hann þarf að gera í tölvunni sinni og segir það reynast vel.