Sem betur fer er sú sem hér heldur á penna (eða réttara sagt: situr við tölvu) að öllu jöfnu við fyrirtaks heilsu og þarf því ekki oft að leita á náðir heilbrigðiskerfisins. En það gerist þó endrum og eins, nú síðast fyrir skömmu síðan.

Sem betur fer er sú sem hér heldur á penna (eða réttara sagt: situr við tölvu) að öllu jöfnu við fyrirtaks heilsu og þarf því ekki oft að leita á náðir heilbrigðiskerfisins. En það gerist þó endrum og eins, nú síðast fyrir skömmu síðan.

Það verður að segjast eins og er að það var ekki með gleði og tilhlökkun í hjarta, því hver hefur ekki heyrt eða lesið sögur um samanlímdan tækjabúnað, þröngan húsakost, undirmannaðar deildir og starfsfólk á mörkum þess að missa vitið eftir að hafa staðið vaktina sólarhringum saman? Ýmsir aðrir heimshlutar en sá vestræni koma upp í hugann við að hlýða á slíkar frásagnir og það er eiginlega á mörkunum að maður eigi að þora þessu.

En stundum er bara ekkert annað í stöðunni en að bíta á jaxlinn og láta sig hafa það.

Í ljósi alls þessa kom það vægast sagt gríðarlega á óvart þegar inn á heilbrigðisstofnunina var stigið, hversu rólegt og afslappað andrúmsloft þar ríkti. Þetta var eiginlega eins og að koma inn á jógastöð á dýrari enda Manhattan. (Ekki eins og undirrituð hafi stigið fæti sínum inn á slíka stöð, en hefur séð nokkra þætti af Sex and the City).

Hlýlegt, brosandi, alúðlegt og umfram allt faglegt starfsfólk lætur manni finnast eins og maður sé miðdepill alheimsins og að það sé ekkert meira aðkallandi en að manni líði sem best. Og það er ekkert sérlega leiðinlegt.

Sá grunur læðist að manni sem snöggvast að kannski sé allur þessi neikvæði fréttaflutningur bara plat. Að yfirdrifið nóg sé af starfsfólki og límbandi vafin lækningatæki séu uppspuni rætinna kjaftaska. Að sögur af yfirgengilegu álagi á heilbrigðisstarfsfólk séu hrein og klár lygi.

En, nei. Þessar sögur eru allar sannar, því miður.

Svo hafa sumir gerst svo djarfir að halda því fram að við séum að reka sambærilegt kerfi fyrir þrjá fjórðu af því fjármagni sem það kostaði áður.

Hvernig sú niðurstaða fæst er mörgum hulin ráðgáta og erfitt að átta sig á því að 20-25% niðurskurður í heilbrigðiskerfinu undanfarin fimm ár hafi ekki haft nokkur einustu áhrif. Þetta er nefnilega enginn smá niðurskurður, en væri kannski í lagi ef heilsufar þjóðarinnar hefði batnað sem þessum prósentum nemur.

En því er ekki að heilsa.

Í þessu sambandi má ekki gleyma því að fólkið sem vinnur á sjúkrahúsunum er fagfólk. Eitt best menntaða heilbrigðisstarfsfólk heims. Og fagfólk reynir í lengstu lög að láta aðstæður á vinnustað ekki bitna á störfum sínum.

En það hlýtur að koma að því, því að það eru takmörk fyrir því hvað fólk getur haldið lengi áfram við svona aðstæður. Og þegar hærri laun og betri vinnuaðstæður bjóðast annars staðar, er þá nokkur furða að það sé farið að grisjast allverulega úr hópnum?

Við megum ekki láta þetta gerast. annalilja@mbl.is

Anna Lilja Þórisdóttir

Höf.: Anna Lilja Þórisdóttir