16. nóvember 1913 Thorvaldsensfélagið hóf sölu á jólamerkjum til ágóða fyrir barnauppeldissjóð sinn. Hvert merki kostaði tvo aura. Á fyrsta merkinu var teikning Benedikts Gröndal Sveinbjarnarsonar af fjallkonunni. 16.

16. nóvember 1913

Thorvaldsensfélagið hóf sölu á jólamerkjum til ágóða fyrir barnauppeldissjóð sinn. Hvert merki kostaði tvo aura. Á fyrsta merkinu var teikning Benedikts Gröndal Sveinbjarnarsonar af fjallkonunni.

16. nóvember 1953

Níu sjómenn fórust en átta komust lífs af þegar síldveiðiskipinu Eddu hvolfdi í stormsveip á Grundarfirði, nokkur hundruð metra frá landi. „Skipbrotsmenn komust til bæja 7 klst. eftir að þeir stukku af kjöl skipsins í nótabátinn,“ sagði í Morgunblaðinu.

16. nóvember 1957

Nonnahús á Akureyri var opnað sem minjasafn þegar hundrað ár voru liðin frá fæðingu Nonna, Jóns Sveinssonar rithöfundar og prests. Hann fór ungur til útlanda og kom tvisvar heim, 1894 og 1930. Þá höfðu bækur hans verið prentaðar í fimm milljónum eintaka. Stytta af Nonna, eftir Nínu Sæmundsson, var afhjúpuð við safnið 1995.

16. nóvember 1996

Dagur íslenskrar tungu var í fyrsta sinn haldinn hátíðlegur, efnt var til málræktarþings og verðlaun Jónasar Hallgrímssonar veitt. Þau hlaut Vilborg Dagbjartsdóttir.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson.