Myntsafnari Sigurður Pálmason, Siggi Pálma, með hluta af vöru- og brauðpeningum í safni sínu. Hann hefur verið safnari allt frá 13 ára aldri og er í þessu af lífi og sál, ekki til að græða peninga, eins og hann segir sjálfur.
Myntsafnari Sigurður Pálmason, Siggi Pálma, með hluta af vöru- og brauðpeningum í safni sínu. Hann hefur verið safnari allt frá 13 ára aldri og er í þessu af lífi og sál, ekki til að græða peninga, eins og hann segir sjálfur. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

„Þetta er fyrst og fremst áhugamál hjá mér og ég er ekki í þessu til að græða peninga,“ segir Sigurður Pálmason myntsafnari, betur þekktur sem Siggi Pálma, en hann hefur safnað mynt og seðlum alveg síðan hann var 13 ára og á orðið dágott safn. Hann sér þó ekki fyrir sér að verða safnari að atvinnu. „Maður skal þó aldrei segja aldrei.“

Siggi er með til sölu ýmislegt úr safni sínu á bandaríska uppboðsvefnum eBay.com, m.a. ónotaðan 100 krónu seðil frá árinu 1927, útgefinn af Landsbanka Íslands. Ásett verð á þann seðil er 12 þúsund dollarar, jafnvirði um 1,5 milljónir króna. Einnig er Siggi með 500 krónu seðil frá árinu 1928, prýddan mynd af Jóni Sigurðssyni, þar sem uppsett verð er tæplega 4 þúsund dollarar, eða um hálf milljón kr.

Hægt að selja hvað sem er

Þegar grannt er skoðað á eBay má sjá margs konar íslenska muni til sölu, ekki aðeins mynt og seðla heldur einnig orður, styttur, skartgripi og húsgögn. Þá ber nokkuð á munum tengdum skákeinvígi Fischers og Spasskys á Íslandi 1972. „Þú getur í rauninni selt hvað sem er, þetta er bara spurning um verð og að hitta á réttan aðila. Það hafa margir góðir hlutir farið á eBay og margir Íslendingar sem eiga þar sín viðskipti,“ segir Siggi en nokkuð er um að fólk leiti til hans með mynt og aðra muni, til að kanna verðmæti og möguleika á sölu. Hefur hann þurft að snúa mörgum vonsviknum til baka, sem hafa talið að þeir byggju yfir földum fjársjóði.

„Við Íslendingar bjuggum til okkar fyrstu mynt árið 1922. Ekkert af þeirri mynt er í raun mikils virði fyrr en þú finnur hluti sem eru ónotaðir, þá breytist allt saman. Þetta á sérstaklega við um kórónumynt.“

Siggi segist aðallega safna svonefndum vöru- og brauðpeningum, sem voru notaðir hér þegar Danir sendu lítið af peningum til landsins. Þá fóru kaupmenn eins og P.Th. Thorsteins að slá sína eigin mynt sem notuð var í bakaríum og ýmsum verslunum. Voru þá aurar gefnir út í nokkrum útgáfum.

„Það er mjög erfitt að finna þessa hluti, ætli séu ekki til þrjú eða fjögur heildstæð söfn á landinu. Fyrstu peningarnir af þessu tagi eru mjög sjaldgæfir. Ég hef ekki slegið á verðmæti safnsins míns, enda er ég fyrst og síðast áhugasafnari og sagan á bak við myntirnar og seðlana finnst mér einstaklega áhugaverð. Fyrir mér er það stórkostlegt að vita af karli á Bíldudal sem notaði vörupeninga til að bjarga sér. Síðan voru þessir peningar bannaðir og þeir nánast hurfu um tíma,“ segir Siggi.

SJALDGÆFIR SEÐLAR

Eiga það skilið að vera sýndir

Ekki eru til mörg ónotuð eintök af seðlunum sem Siggi Pálma er með á eBay, enda höfðu þeir mikið verðgildi á sínum tíma.

Hann segist ekki reikna með að selja seðlana á þessu verði, hann noti eBay meira til að sýna söfnurum úti í hinum stóra heimi að fágæt myntsöfn séu til á Íslandi. Gríðarlega mikið sé t.d. til af lýðveldismyntinni svonefndu, sem notuð var frá 1940 til 1980.

„Við skiluðum ekki 600 tonnum við síðustu myntbreytingu þannig að mikið er til af því sama. Með því að setja á vefinn sjaldgæfa mynt kemst maður kannski í samband við áhugasama safnara. Þessir seðlar eiga það skilið að vera sýndir,“ segir hann.

Finna má seðlana á eBay með því t.d. að slá inn „Icelandic Bank Notes“.