Í Keflavík Kristinn Friðriksson sport@mbl.is Skallagrímur heimsótti Keflvíkinga í gærkvöldi í gríðarlega mikilvægan leik. Keflavík er að rétta úr kútnum en Skallarnir að hiksta eftir góða byrjun.

Í Keflavík

Kristinn Friðriksson

sport@mbl.is

Skallagrímur heimsótti Keflvíkinga í gærkvöldi í gríðarlega mikilvægan leik. Keflavík er að rétta úr kútnum en Skallarnir að hiksta eftir góða byrjun. Keflavík átti ekki frábært kvöld en klárlega nógu gott til að landa sigri gegn skipulagslausum Sköllum; lokatölur 81:72 í köflóttum leik.

Í upphafi var hraðinn mikill, varnarleikur dapur og liðin skiptust á forystu. Útlendingar beggja liða voru mjög afgerandi fyrstu mínútur leiksins, bæði í sókn og vörn en heimamönnum virtist líða betur inni á vellinum; spiluðu betri vörn og voru öflugri í fráköstum. Það var hins vegar í lok fyrsta og byrjun annars hluta sem Skallarnir náðu forystu með ágætum varnarleik og baráttu í fráköstum.

Sjö stig í röð og tveir stolnir frá Vali Valsyni, varið skot frá Ragnari Albertssyni og nokkur hraðaupphlaup kveiktu hins vegar upp í gasgrilli heimamanna og í boði var steik af kú Skallanna sem gátu ekki keypt sér körfu á þessum kafla. Það þurfti 5 stig frá Quaintance til að rífa kúna af teinunum og varna því að heimamenn stungu ekki af.

Keflvíkingar gerðu heiðarlega tilraun til að nýta sér stemningu fyrri hálfleiks til að gera út um leikinn í upphafi seinni hálfleiks og fóru langleiðina; munurinn fór í 21 stig og engin teikn á lofti að Skallarnir ætluðu að forða sér úr sláturhúsinu. Varnarleikur Keflvíkinga var hreyfanlegur og yfirdrifið nógu góður gegn döprum gestum, sem náðu þó að minnka muninn í 66:54 fyrir síðasta leikhluta. Munurinn fór undir 10 stiga múrinn en heimamenn gerðu vel að landa sigrinum; sóknin var fín lengst af en beið afhroð í síðasta hluta en skipti litlu máli. McDowell, Lewis og Valur voru góðir, Craion bestur en sumir voru hreinlega fyrir á köflum.

Skallarnir voru mjög illa fyrir kallaðir; sóknarleikur hræðilegur lengst af og íslenskir leikmenn sáust varla með boltann. Liðið gerði vel að klóra í bakkann á lokakaflanum en virtist aldrei hafa nægilega trú á verkefninu. Skallarnir vinna ekki leiki með svona spilamennsku; áhorfendur Skallanna voru bestu menn liðsins.