Læknar Hlutirnir taka lengri tíma með réttarmeinalækni sem er í hlutastarfi en ekki í fullri stöðu.
Læknar Hlutirnir taka lengri tíma með réttarmeinalækni sem er í hlutastarfi en ekki í fullri stöðu. — Morgunblaðið/Ómar
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is „Í sumum tilvikum veldur það töfum á rannsóknum í sakamálum almennt, að það skuli ekki vera neinn til að ganga í málið og klára það.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

„Í sumum tilvikum veldur það töfum á rannsóknum í sakamálum almennt, að það skuli ekki vera neinn til að ganga í málið og klára það. Það er bagalegt og aldrei gott að mál tefjist,“ segir Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari, aðspurð um hvort það tefji rannsóknir mála, að hér á landi sé ekki starfandi réttarmeinalæknir í fullri stöðu. Starf réttarmeinalæknis er nú hlutastarf. Hingað til landsins kemur reglulega þýskur réttarmeinalæknir. Enginn Íslendingur hefur sinnt starfinu eftir að Þóra Steffensen starfaði sem slíkur.

„Við erum með útlenda réttarmeinalækna í hlutastarfi hjá okkur. Staðan hefur verið með þeim hætti frá því löngu fyrir hrun og tengist því ekki sparnaði á neinn hátt,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans. Hann segir það dýrara að fá erlenda lækna til að sinna starfinu. Þetta sé lendingin því enginn Íslendingur hefur fengist í starfið.

„Ég held að gangur mála hér á landi sé ekki frábrugðinn öðrum löndum, þó vissulega sé þetta öðruvísi í sjónvarpsþáttunum CSI,“ segir Björn. Hann bendir á að rannsóknirnar sem ættu sér stað þar væru ekki í takt við raunveruleikann.

„Það hefur verið okkar vandi undanfarin ár að við höfum þurft að reiða okkur á útlenda réttarmeinafræðinga í nokkur ár. Flestir hafa komið frá Þýskalandi,“ segir Bjarni A. Agnarsson, yfirlæknir á rannsóknarstofu í meinafræði við Landspítalann. Tveir Íslendingar hófu nýverið framhaldsnám í réttarlæknisfræði í Svíþjóð. „Það eru blikur á lofti um heimkomu íslenskra lækna og því veit maður ekki hvað verður. Það er vandamál sem ég reikna með að margar sérgreinar glími við. En auðvitað vona ég að það fólk sem er að læra snúi aftur heim,“ segir Bjarni.

Jafnframt segir hann að „það væri betra að hafa meinafræðing sem væri hér alltaf. Þetta leiðir til þess að hlutirnir taka lengri tíma. En ég tel að það sé verið að sinna því sem þarf að sinna.“