Þórunn Helga Guðmundardóttir fæddist á Ísafirði 14. júlí 1959. Hún lést á heimili sínu 8. nóvember 2012.

Þórunn ólst upp á Melgraseyri við Ísafjarðardjúp. Foreldrar hennar eru Guðmundur Kristján Magnússon, f. 1927, og Kristín Steinunn Þórðardóttir, f. 1928, d. 2005, bændur á Melgraseyri. Systkini Þórunnar eru 1) Snævar Guðmundsson, f. 1956, giftur Önnu Guðnýju Gunnarsdóttur, f. 1969, sonur Snævars Jakob Már, f. 1988, synir Önnu Ástþór Ingi, f. 1993, og Gunnþór Tumi, f. 1996. Dætur Snævars og Önnu eru Kristín Valgerður, f. 2004, og Steinunn Jóhanna, f. 2007. 2) Magnea Jenny Guðmundardóttir, f. 1963, dóttir hennar er Ragnheiður Kristín, f. 1991.

Þórunn giftist 1979 Steindóri Karvelssyni, f. 1958, þau skildu, saman eiga þau soninn Fannar Karvel, f. 1980, sem er í sambúð með Sigríði Þórdísi Sigurðardóttur, f. 1978, þau eiga synina Sigurð Karvel, f. 2008, og Steindór Orra, f. 2011.

Þórunn giftist 1995 Kolbeini Péturssyni, f. 1963, þau eiga saman Natan, f. 1993, Sölku, f. 1995, og Arnfinn, f. 1996.

Þórunn gekk í Reykjanesskóla og tók landspróf í Reykholti í Borgarfirði, síðan lá leið hennar í Menntaskólann á Ísafirði, lauk námi í tækniteiknun frá Iðnskólanum á Ísafirði, 1985 lauk hún námi við Samvinnuskólann á Bifröst. Þórunn var að hefja nám að nýju og stefndi á háskólanám í skógfræði. Þórunn vann fjölbreytt störf, fyrst landbúnaðarstörf á Melgraseyri, fiskvinnslu með skóla á Ísafirði, á bæjarskrifstofu Bolungarvíkur, skrifstofu Framsóknarflokksins í Reykjavík þar sem hún var mjög virk um árabil og var eitt kjörtímabil varaþingmaður fyrir Framsóknarflokkinn í Vestfjarðakjördæmi. Hún sat í stjórn sjúkrahússins á Patreksfirði meðan hún bjó á Tálknafirði á árunum 1993 til 2002 þar til hún flutti til Kópavogs. Hún starfaði að sveitarstjórnarmálum á Tálknafirði meðan hún bjó vestra. Eftir að Þórunn flutti suður vann hún m.a. fyrir Handprjónasamband Íslands og sem leigubílstjóri.

Útför Þórunnar Helgu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 16. nóvember 2012, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku mamma mín. Ævi þín var stutt en viðburðarík og af öllu stendur það upp úr hversu góð þú varst við alla menn, engu skipti hvort um var að ræða kóng eða prest, betlara eða lítilmagna, öllum mættir þú á jafnréttisgrundvelli og í þínum augum var enginn maður öðrum æðri. Alltaf lagðir þú þig fram við að hjálpa þeim sem minna máttu sín og aldrei liðum við systkinin skort á nokkru og hvað þá ást og umhyggju.

Þegar ég rifja upp góðu tímana okkar veit ég varla hvar skal byrja. Allar þær stundir sem við áttum ein saman við bras og basl, þegar við áttum heiminn alein á leiðinni í sveitina, borðandi glænýjar gúrkur á leið heim frá ömmu og afa eða stóru fjölskyldumáltíðirnar í litlu íbúðinni við litla borðið þar sem sannast að þröngt mega sáttir sitja. Sú ást og umhyggja sem þú ólst mig upp við er ómæld og kemst ekki fyrir í fáum orðum, henni kem ég til með að skila til ömmuljósanna þinna eins vel og ég get. Sigurður og Steindór eiga eftir að sakna þín og allra stundanna sem þið áttuð við að brasa hitt og þetta. Mér er minnisstætt þegar Sigurður Karvel fékk að vera hjá ömmu einn daginn þegar hann var lasinn og þann dag vökvaði hann blómin, umpottaði öðrum blómum og bakaði vínarbrauð og fór með til langafa, marga daga eftir þann dag sagðist minn maður vera veikur og þurfa að fara til ömmu Tótu. Alveg eins vildi Steindór Orri hvergi annars staðar vera en hjá ömmu, hljóp að húsinu þegar við komum og beint í fang ömmunnar og yrti varla á pabbann sem beið eftir kveðjuknúsinu, hann var sko kominn til ömmu. Drengirnir mínir hafa misst mikið en þeir munu minnast þín alla ævi fyrir þann kærleik og endalausu hjartahlýju sem þú veittir þeim og okkur.

Það er með trega í hjarta að ég kveð þig mamma mín, alla mína tíð mun ég leitast við að halda minningu þinni hátt á lofti og veita öllum þá umhyggju og skilning sem þú sýndir okkur öllum. Ég veit að þér líður vel núna og vakir yfir okkur alla okkar daga, núna ertu komin heim.

Í Djúpinu er dásamlegt að vera

því dásamlegri stað ei nokkur veit

í Djúpinu er dásamlegt að vera

því Drottinn skóp þar unaðslegan reit.

Við sitjum þar og horfum út á hafið

og hugur fer á minninganna slóð

við sitjum þar og horfum út á hafið

og hlýðum klökk á liðins tíma óð.

(Jón Fanndal)

Fannar Karvel.

Elsku mamma, nú er þinn tími kominn til að halda á vit nýrra ævintýra og verkefna þótt þú hafir yfirgefið okkur svo snemma og skjótt að erfitt er að sætta sig við. Þú sýndir öllum í kringum þig kærleik og umhyggju, sama hvort hann var fátækur öryrki eða vel stæður þingmaður. Hvert sem þú fórst geislaði umhyggja og kærleikur sem fáir aðrir geta gefið frá sér. Þú brostir alltaf; sama hvað á reyndi og sama hvað var að angra þig þá var velferð annarra alltaf efst í huga þér.

Þú gafst allt sem þú hafðir til skiptanna til þeirra sem ekkert höfðu og kenndir mér að góðmennska er besta gjöfin sem hægt er að gefa.

Allt sem þú gast gefið gafstu og gerðir allt sem þú gast til að líf okkar systkinanna væri sem best.

Þú reyndir hvað þú gast að hlífa mér fyrir erfiðleikum heimsins og leiddir mig í gegnum erfiða tíma.

Þú bjóst ekki í veglega einbýlishúsinu sem þig alltaf dreymdi um en hvert sem þú fluttir var alltaf þessi tilfinning um að hér væru allir velkomnir þótt þröngt væri. Allir sem vildu gátu til þín leitað í vanda og þú gerðir það sem var í þínu valdi til að leysa það.

Þú kenndir mér jafnrétti og virðingu og að enginn væri betri en annar bara vegna stöðu sinnar eða ætternis. Við hefðum öll fæðst jöfn og réttur okkar á lífi væri alltaf sá sami hvort sem við værum svört, hvít, konur, karlar, Íslendingar eða arabar og sýndir þú það kannski best þegar þú talaðir um guð sem svarta konu í Afríku.

Þú sýndir mér mikilvægi fjölskyldu og að ekkert væri mikilvægara en sterk fjölskylda sem kæmi sem oftast saman þótt það væri í þessari smáu íbúð sem þú bjóst í.

Nú ertu komin til ömmu og með henni horfir þú niður til okkar allra og þið passið að leiða mig á réttar brautir og sjáið til þess að ég sé aldrei einn, sama hvar ég er í heiminum. Þú horfir niður á okkur systkinin og sonarsyni þína og við vitum öll að þrátt fyrir erfiðleika þína elskaðir þú okkur alltaf af öllu hjarta og vildir alltaf allt fyrir okkur gera. Nú ertu með mér í hjarta og lýsir mér leið í myrkri og fyllir mig von þegar allar leiðir virðast lokaðar.

Ég lofa þér mamma að halda minningu þinni á lofti um ókomna tíð.

Ég lofa þér að ég held baráttu þinni fyrir jafnrétti og virðingu þeirra verst stöddu áfram og að ég mun alltaf passa að enginn verði annars flokks borgari eða útundan í öllu sem ég mun taka mér fyrir hendur.

Andi þinn er kominn heim í sveitina þar sem þú áttir heima og þú ert þegar byrjuð að minna á þig í kringum okkur og munt aldrei hverfa mér úr hjarta.

Natan.

Eins og lífið er yndislegt þá dregur stundum fyrir sólu og við upplifum erfiða tíma. Undanfarna daga hefur sólin verið á bak við skýin og söknuður og þakklæti verið þær tilfinningar sem ég hef upplifað. Þegar okkar tími er kominn er ekkert sem stöðvar það, svo mikið er víst. Þau eru misjöfn verkefnin sem við veljum okkur í lífinu og öll förum við misjafna leið til að ná þeim.

Sumum er hún auðveld en flestum er hún strembin. Þitt verkefni var mikið og stórt en það er trú mín að þú hafir verið búin að klára það, vinna baráttuna og sættast við sjálfa þig, guð og menn og því kominn tími til að kveðja þetta jarðlíf. Undanfarnir mánuðir hafa verið yndislegir og þér búið að líða svo vel; hlakkaðir til framtíðarinnar, komin í skóla og farin að setja þér markmið, sem var svo gott fyrir okkur hin að finna og heyra. Litlu ömmuljósin þín voru svo sannarlega að hjálpa þér að finna lífskraftinn og tilganginn með þessu öllu saman, enda varstu alltaf boðin og búin til að vera með þá, sækja þá í leikskólann og aðstoða okkur á allan hátt. Strákarnir stukku af stað um leið og við renndum í hlað fyrir utan blokkina og kepptust um að fá að ýta á takkana til að opna dyrnar og hlaupa í faðminn á þér þegar þú beiðst í dyrunum. Þeir eru búnir að missa svo mikið og þá sérstaklega Sigurður Karvel enda voruð þið bestu vinir í heiminum. Hjá ömmu Tótu gátu þeir dundað sér með allt og ekkert á meðan þú sast í stólnum þínum og prjónaðir lopapeysurnar eða lást á gólfinu og lékst við þá. Þið brölluðuð svo mikið saman, ferðirnar með strætó á bókasafnið, dundið í litla garðinum þínum þar sem þú leyfðir þeim að sulla og vökva blómin, bökuðuð kökur fyrir langafa sem þið fóruð með til hans, gáfuð fiskunum, lékuð með potta og sleifar og ótal litlir hlutir sem skiptu okkur svo miklu máli. Alltaf gafstu þeim athygli þína 100% og það var svo gaman að sjá hvað þeir voru afslappaðir og glaðir þegar þeir voru hjá þér, enda sagðirðu alltaf þegar við komum að sækja þá: „Þeir eru búnir að vera alveg yndislegir og ekki heyrst eitt einasta tuð eða taut í þeim,“ eitthvað held ég að það hafi kannski ekki alltaf verið alveg satt. Við Fannar ræddum svo oft um það hversu heppin við værum að hafa alla góðu stundirnar með þér og strákarnir svo heppnir að fá að eiga þig að og kynnast þér. Þegar þér leið vel þá hugsaðir þú svo vel um börnin þín og alla sem á vegi þínum urðu, bæði dýr og menn, fórst með mat til þeirra sem þurftu, snattaðist með gormana þína út um borg og bæ eða skrappst með langafa vestur í Djúpið þitt þar sem þér leið alltaf svo vel.

Ég er svo þakklát fyrir þær stundir sem við ræddum um lífið og tilveruna og þú sagðir mér frá því hvað væri efst á blaði hjá þér þá stundina. Við litla fjölskyldan erum heppin að eiga ömmu Tótu engil á himnum sem passar vel upp á okkur.

Skammdegi og skuggsýnt er

ský á himin draga

ömmuljósið lýsir mér

léttir alla daga.

(Amma Tóta, okt. 2012)

Elsku fallega og góða Þórunn mín, ég á eftir sakna matarboðanna þinna, heimsóknanna og nærveru þinnar, hafðu það sem best.

Þín

Sigríður Þórdís.

mbl.is/minningar

Kæra mágkona, það er erfitt að hugsa til þess að þú sért ekki lengur hér. Ég man þegar ég sá þig fyrst, við Snævar vorum búin að vera saman í einhvern tíma. Ég kem í Jökulgrunnið og ertu þar í heimsókn, þetta var að sumri til. Þegar ég sá þig hugsaði ég: „Vá, hún er eins og gyðja.“ Þarna varstu brosandi, falleg, dökk á brún og brá, með dökkt sítt hár og í mjallahvítum hörkjól. Frá þessum fyrstu kynnum erum við búnar að eiga góðar stundir og er efst í huga mér sl. sumar. Við áttum góðar stundir á Melgraseyri þar sem þú undir þér best. Þar varstu í essinu þínu að leggja net og veiða, grafa fyrir staurum, tína ber og sveppi.

Taka á móti fólki, elda og prjóna. Þú varst sú færasta að veiða og kenndir mér margt. Þú kunnir að lesa landið, ána og sjóinn og vissir nákvæmlega hvernig átti að umgangast náttúruna. Þú lagðir og greiddir úr netinu eins og ekkert væri. Óðst ískalt vatnið upp í hné ef þú þurftir og fannst allt gaman. Ég sé þig líka fyrir mér þar sem þú situr flötum beinum að grafa fyrir hornstaurum með skóflu og gamlan pott að vopni.

Við áttum líka yndislegar stundir fyrir framan kamínuna, ræddum alla heima og geima og prjónuðum út í eitt. Þú sagðir mér svo margt í sumar sem þú hefur ekki verið tilbúin að ræða áður sem varð til þess að ég skildi þig svo miklu betur þar sem stundum varst þú algjör ráðgáta. Þú varst alltaf brosandi og dillaði í þér hláturinn. Þú hændir að þér öll börn á augnabliki. Þú geislaðir af krafti og höfðum við oft að orði að þú værir bara ofvirk. Það var stundum eins og hundrað manns væru þar sem þú varst því allt gekk svo hratt og aldrei nein vandamál, þú bara gekkst í verkin. Þar held ég að þú hafir verið lík henni mömmu þinni, algjör dugnaðarforkur. Þú einfaldlega tókst af skarið með svo marga hluti.

Minningarnar streyma fram og man ég hvað það voru góðir tímar þegar þú komst að Hamri, þú fylltir húsið af lífi og gleði. Þú varst ekki búin að vera þar nema augnablik þegar húsið angaði af kökuilmi, búið að skúra út og hugurinn kominn út. Smalamennska var nú ekki mikið mál fyrir þig og sé ég þig rjóða í kinnum, brosandi í alltof stórri lopapeysu, nýkomna af hestbaki og ánægða með dagsverkið. Ég man þegar þú þrælaðir Michael í smalamennsku og hvað þú hlóst að honum þegar hann kom labbandi heim með hestinn í taumi. Þér fannst hann ekki mikill hestamaður né smali þá, en mikill dýravinur var hann.

Það átti vel við þig að keyra leigubíl eins og þú gerðir síðastliðin ár. Þér hentaði vel að vera á ferðinni og þú elskaðir að hitta fólk og spjalla. Þér fannst þú svo rík að eiga fjögur gullfalleg börn og ekki síst varstu rík þar sem þú áttir tvo ömmustráka sem þú kallaðir ömmuljósin þín.

Það er með söknuði sem ég kveð þig, elsku Þórunn mín. Þú minntir mig reglulega á að ég ætti að fara vel með hann bróður þinn, þú hljópst um leið og gerðir grín en ég veit að þú meintir þetta.

Elsku Snævar minn, Guðmundur, Magnea, Fannar, Natan, Salka, Arnfinnur, Sirrý og ömmuljósin, Guð veri með ykkur og veiti ykkur styrk í þessari erfiðu raun.

Anna Guðný Gunnarsdóttir.

Fyrir þremur vikum fékk ég símtal sem hófst með kunnuglegu og vinsamlegu ávarpi og svo kom hlátur. Skellandi, smitandi og yndislegur hlátur. Það var þá sem ég áttaði mig á hver var á línunni og það gladdi mig að heyra þessa rödd úr fortíðinni. Þetta var hún fyrrverandi mágkona mín, Þórunn Helga Guðmundardóttir. Þetta kvöld áttum við mjög skemmtilegt samtal um lífið, um börnin okkar, um hesta og um fólk sem við þekktum. Fortíðin var rædd og við mæltum okkur mót og ákváðum að fara saman með börnin okkar á hestbak í desember. Eftir símtalið rifjaði ég upp gamla daga, gleðilegar samverustundir og ég brosti með sjálfri mér. Þórunn var skemmtileg kona.

Ég kynntist Þórunni Helgu sumarið 1981. Hún var frá Melgraseyri, en bjó þá í Bolungarvík ásamt eiginmanni sínum og syni þeirra, Fannari Karvel. Hún var lífsglöð, réttnefndur orkubolti og mikill húmoristi. Ég man hvað ég dáðist að henni og fannst gaman að vera í kringum hana – hún var svo dugleg og kunni svo margt! Næstu árin tókst milli okkar mikill vinskapur. Við vorum ekki einungis mágkonur heldur líka vinkonur. En, eins og gerist stundum, skilur leiðir.

Lífið er ekki alltaf sanngjarnt og leiðin að sama skapi ekki alltaf einföld. Þórunn hafði fengið sinn skammt af erfiðleikum. Hún glímdi við áfengisvandamál í nokkur ár en virtist hafa tekist að vinna bug á Bakkusi og horfði til betri tíðar.

Þórunn var mikið náttúrubarn, elskaði sveitina sína og var dugleg, sannkallað hörkutól til vinnu. Þau eru ófá skiptin sem ég man eftir Þórunni að skreppa út seint á kvöldin til að vitja um net í Selá og að sjálfsögðu fór hún á „Gamla-Massanum“. Hún var mikil veiðikló og kappsöm og við hin nutum góðs af. Hún hafði gaman af lífinu og naut þess að taka fullan þátt í því. Allt sem hún tók sér fyrir hendur gerði hún af ákafa, hvort sem það var kappakstur í rallý, smölun kinda, bakstur eða prjónaskapur; hún lagði sál sína alla í hvert verk.

Fallegar minningar ylja. Þórunn var í eðli sínu mjög skemmtileg og kát manneskja. Hún kom fólki til að brosa og hlæja, hún var léttlynd og hlý. Þannig var hún og þannig mun ég ávallt minnast hennar. Ég er afar þakklát fyrir að hafa kynnst henni, þakklát fyrir góðar samverustundir og góðar minningar um hjartahlýja konu frá Melgraseyri.

Það er með sorg í hjarta sem ég kveð Þórunni Helgu. Ég votta allri fjölskyldu hennar mína dýpstu samúð.

Kristen Mary Swenson.

Elsku frænka.

Mikið eigum við eftir að sakna þín. Þú gafst lífinu lit með miklum húmor, hugrekki og lést ekkert stoppa þig. Ég man þegar ég var lítil og það var sett á markað súkkulaði sem átti bara að vera fyrir stráka. Vitleysingurinn ég hélt mig í góðri fjarlægð af ótta við að mér myndi vaxa skegg ef ég myndi borða það. Síðan fór ég út í búð með þér og auðvitað vildirðu borða þetta súkkulaði frekar en alltannað, bara af því það var „bannað stelpum“. Þá þorði ég að fá mér þegar þú þorðir og síðan hlógum við bara að þessu.

Mér finnst svo óraunverulegt að þú sért farin. Bara í síðustu viku vorum við að skipuleggja hvernig árlega jólaboðið ætti að vera og ætluðum að hjálpast að. Í rauninni er enn hluti af mér sem heldur að þú munir birtast í desember, búin að baka tíu sortir og spyrjir hvort við ætlum ekki að gera neitt, eins og ekkert hafi ískorist.

Síðan koma stundir þar sem raunveruleikinn slær mann utan undir og segir að það muni ekki gerast. Ég man þegar við fórum í minningarathöfnina hennar ömmu, sem var haldin í apríl, og öllum var kalt. Þá sagðir þú að okkur væri ekki bara kalt út af því það væri kalt úti heldur væri öllum líka kalt inni í sér. Þá er sama hvað maður fer í margar peysur, manni er samt kalt þar sem tómarúmið situr eftir.

Þú varst líka alltaf svo sniðug. Þegar ég var eitthvað aumingjaleg að sjá komst þú og sagðir „æi, ræfilsrolutuskan mín“ eins og Mía sagði í Múmínálfunum, en það virkaði alltaf til að mér liði aðeins betur. Núna verðum við ræfilsrolutuskurnar að reyna að styðja við bakið hver á annarri meðan þú vakir yfir okkur.

Þín frænka,

Ragnheiður Kristín.

„Hvernig á að þvo köttinn.“ Skondin saga sem Þórunn setti inn á fésbókarsíðuna sína fyrir fáum dögum, ég flissaði ein fyrir framan tölvuna þegar ég las þessa sögu og ætlaði að skrifa eitthvað til hennar um að þetta væri nú alveg okkar húmor. Eitthvað truflaði og ég hugsaði, geri þetta næst þegar ég kíki á síðuna hennar. En það var ekkert næst. Allt í einu var hún farin án nokkurs fyrirvara, kannski dálítið hún, ekkert að hanga yfir hlutunum. Nema að í þetta sinn voru ráðin tekin af henni, ekki hún sem skipulagði, heldur eitthvað annað, almættið, þó maður skilji ekki tilganginn.

Hún er sú fyrsta af okkar stóra frændsystkinahópi til að kveðja okkur, við gerðum sennilega flest okkar ráð fyrir að við hefðum a.m.k. hundrað ár eins og afi og amma í Laugarholti en erum nú rækilega minnt á að þannig er það ekki. Það er ekkert víst að við getum hist næst þegar okkur hentar.

Það er svo ótal margt sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um Þórunni. En það er erfitt að setja þær hugsanir niður á blað svo þær gefi rétta mynd af henni. Ég get sagt að mér finnist hún hafa verið ofurkona, gerði minnst tvo hluti í einu, án þess að maður tæki eftir því. Hún var jaxl sem dreif í hlutunum. Hún gat verið óútreiknanleg. Hún var náttúrubarn. Hún tókst á við erfiðleika og yfirvann þá. Hún var vinur vina sinna. Hún var Þórunn á Melgraseyri. Hún var systir Magneu – bestu vinkonu minnar. Hún kallaði mig ennþá Nóu, sem var svo notalegt. Hún kynnti mig fyrir manninum mínum. Svo er allt hitt sem við munum rifja upp og skemmta okkur yfir þegar við hittumst næst.

Elsku Fannar og fjölskylda, Natan, Salka, Arnfinnur, Guðmundur, Magnea og Snævar. Hugur minn er hjá ykkur þessa dimmu daga. Ég bið þess að sá guð sem lætur sólina skína á Djúpið sendi ykkur birtu og yl.

Jóhanna Halldórsdóttir.

Fyrir hönd fjölskyldu minnar þakka ég Þórunni Helgu Guðmundardóttur samfylgdina og votta börnum hennar, barnabörnum, föður, systkinum og vinum samúð okkar. Megi góður guð styrkja og styðja fólkið hennar.

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,

sem dropi breytir veig heillar skálar.

Þel getur snúist við atorð eitt.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast

við biturt andsvar, gefið án saka.

Hve iðrar margt líf eitt augnakast,

sem aldrei verður tekið til baka.

(Einar Benediktsson.)

Níels Adolf Ársælsson.

Bláir eru dalir þínir

byggð mín í norðrinu

heiður er þinn vorhiminn

hljóðar eru nætur þínar

létt falla öldurnar

að innskerjum

hvít eru tröf þeirra.

(Hannes Pétursson)

Þórunn frá Melgraseyri er látin. Sú fyrsta af barnabörnum Helgu og Þórðar á Laugalandi, hópnum sem ólst upp samtímis mínum börnum vestur við Djúp. Fyrir hugskotssjónum mínum líða myndir og minningabrot.

Rúmlega ársgömul, íhugul og alvarleg. Gefur sig ekki að ókunnri konu sem á að sjá um heimilið í nokkra daga meðan mamma er fjarverandi. Aðeins pabbi má svæfa hana. Hefur samt lúmskt gaman af litla frændanum sem er að byrja að ganga á eldhúsgólfinu á Melgraseyri.

Nú er hún á leið með mér í berjamó, falleg unglingsstúlka, dugleg bæði úti og inni, hefur gaman af fénu og glögg á það. Við förum fram Miðveg með bakpoka og berjafötur. Vöðum yfir Hraundalsána hjá Klofasteini og stefnum á Berjahjalla ofan við Breiðablik. Þar var Hjalti ömmubróðir hennar seinasti ábúandi. Förum heim með full ílát. Góður dagur að baki.

Mannfjöldi í litlu kirkjunni á Melgraseyri. Þau Steini ganga inn kirkjugólfið. Hún er svo falleg í hvíta brúðarkjólnum.

Kemur að Laugalandi úr hestaferð og gistir hjá mér. Ég lána henni stóra flónelsskyrtu til að sofa í og breiði sængina vel yfir hana. Hún brosir og þakkar mér, hefur svo fallegt bros.

Aftur Melgraseyri. Nú er það jarðarför Dóra móðurbróður hennar. Hún faðmar mig að sér með tárvot augu. Ég átti ekki von á henni, nýbúin að eignast Sölku en þarna var hún komin með litlu stúlkuna í burðarpoka og það var gott að sjá hana.

Við sitjum uppi við Gilsvötn, búnar að tína fjallagrös og nú fer leiðir að skilja. Ég fer niður í dalinn, hún ætlar að ganga í átt til sjávar ofan að Hamri. Hún tekur utan um mig „Farðu vel með þig og guð geymi þig“. Ég horfi á eftir henni, hún hleypur léttstíg milli þúfnanna og fjarlægist, þessi góða og hlýja stúlka.

Samúð mín er djúp og einlæg með fjölskyldu hennar. Guð geymi ykkur öll.

Ása Ketilsdóttir.