Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bjarni Benediktsson lýsti þeirri skoðun sinni á þingi í gær „að ekkert eitt mál geti skipt lífskjörin í landinu jafnmiklu og ef vel tekst til við afnám haftanna og stýringu á útflæði þess gjaldeyris sem þrýstingur er á um að greiða út úr landinu.

Bjarni Benediktsson lýsti þeirri skoðun sinni á þingi í gær „að ekkert eitt mál geti skipt lífskjörin í landinu jafnmiklu og ef vel tekst til við afnám haftanna og stýringu á útflæði þess gjaldeyris sem þrýstingur er á um að greiða út úr landinu.“

Forsætisráðherra hafði á hinn bóginn engar áhyggjur af þessu og sagði að við hefðum „öll tök á málinu“ þar sem Seðlabankinn hefði reglugerðarvaldið.

Bjarni nefndi í því sambandi að árið 2009 hefði bankinn vanreiknað erlenda skuldastöðu um 800 milljarða króna og sagðist hafa „verulega miklar áhyggjur“ af svari forsætisráðherra.

Hann sagði að það væri „algerlega skýlaus krafa“ að þingið yrði ekki aðeins upplýst heldur ætti það einnig síðasta orðið um hvernig þessum málum yrði háttað. „Það er engan veginn ásættanlegt þegar um jafnstór mál er að ræða að þingið sitji hjá, sætti sig við að fá að fylgjast með og eftirláti einum manni endanlega ákvörðun í málinu.“

Jóhanna svaraði því til að það væri ekki aðeins einn maður sem héldi utan um málið heldur „fylgjast ráðuneytin, ekki síst efnahagsráðuneytið og fjármálaráðuneytið, mjög vel með þessum málum og eins ráðuneyti bankamála.“

Vissulega er til bóta að forsætisráðherra komi hvergi nærri í þessu hagsmunamáli, en ætli einhverjum sé létt að vita að Már hefur Steingrím og Katrínu sér til ráðgjafar?