Sigríður Á. Andersen
Sigríður Á. Andersen
Sigríður Á.

Sigríður Á. Andersen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram frumvarp fyrir Alþingi um breytingu á starfsmannalögum sem felst í því að óheimilt verði að skipa, eða ráða, mann til embættis ef hann hefur verið settur til að gegna því á síðustu tólf mánuðum.

Að sögn Sigríðar fór hún að velta þessu máli fyrir sér eftir að hún heyrði sjónarmið Umboðsmanns Alþingis varðandi tímabundnar ráðningar. „Í framhaldinu af því fór ég að velta því fyrir mér þessu forskoti sem menn, sem eru tímabundið settir eða ráðnir, hafa þegar staðan sjálf er auglýst til frambúðar,“ segir Sigríður og bætir við: „Það er þekkt að oft þegar menn auglýsa stöðurnar eru þær sérhannaðar að þeim sem hefur gegnt stöðunni undanfarna mánuði. Oft er það þannig að það er nánast ómögulegt fyrir einhvern annan að sækja um.“

Aðspurð hvort hún hafi fundið fyrir stuðningi við frumvarpið segir Sigríður: „Já, ég hef að minnsta kosti ekki fundið fyrir neinni andstöðu við það. Ég held að flestir séu sammála um að þessar tímabundnu ráðningar hafa stundum farið út fyrir öll velsæmismörk.“ Þá bendir hún á að það komi í hlut Birgis Ármannssonar, sem flytur frumvarpið með henni, að mæla fyrir því.

skulih@mbl.is

Tímabundnar ráðningar
» Sigríður Á. Andersen og Birgir Ármannsson hafa lagt fram frumvarp um breytingar á starfsmannalögum.
» Breytingin felst í því að við sjöttu grein laganna bætist ný málsgrein: „Óheimilt er að skipa mann eða ráða til embættis ef hann hefur á síðustu tólf mánuðum verið settur til þess að gegna því.“