Umbreyting Alls taka sautján leikarar þátt í uppfærslunni og bera þeir allir hálfgrímu, en það er túlkunarleið leikstjóra og leikhópsins að verkinu.
Umbreyting Alls taka sautján leikarar þátt í uppfærslunni og bera þeir allir hálfgrímu, en það er túlkunarleið leikstjóra og leikhópsins að verkinu.
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Grunnhugmyndin sem ég lagði upp með er að elta þær vísbendingar sem höfundurinn skrifar inn í verkið um það hvernig hann sér leiklist fyrir sér.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Grunnhugmyndin sem ég lagði upp með er að elta þær vísbendingar sem höfundurinn skrifar inn í verkið um það hvernig hann sér leiklist fyrir sér. Ionesco vildi ögra reglum leikhússins og lét hafa eftir sér að hann sæi persónur sínar sem strengjabrúður. Hann tók jafnframt fram að sumar strengjabrúður vilji ekki láta stjórna sér og þar kemur að lykilþætti verksins. Við erum að skoða hvenær við setjum upp grímu til að reyna að geðjast öðrum og hvað við gerum til að berjast gegn þessari tilhneigingu okkar,“ segir Árni Kristjánsson sem leikstýrir leikritinu Nashyrningunum eftir Eugéne Ionesco hjá Stúdentaleikhúsinu sem frumsýnt verður í Norðurpólnum í kvöld kl. 20.

„Verkið, sem er eitt lykilverka absúrdleikhússins, fjallar um lítinn bæ þar sem tilteknir bæjarbúar tapa mennsku sinni og breytast í nashyrninga, einhyrnda eða tvíhyrnda. Rökhugsun, tungumál og náungakærleikur hverfur úr bænum en við tekur traðkandi taktur nashyrninganna,“ segir Árni þegar hann er inntur eftir innihaldi leikritsins. „Verkið er náttúrlega skrifað inn í landslag þar sem ótrúlega stórir atburðir höfðu átt sér stað í Evrópu,“ segir Árni og tekur fram að því sé ekki skrýtið að leikritið hafi á sínum tíma verið túlkað sem uppgjör Ionescos við nasismann. „En þetta er verk sem sífellt er hægt að túlka upp á nýtt og finna nýja nálgun að því. Grunnþráðurinn í því snýst í raun um baráttu mannsins fyrir að varðveita mennsku sína,“ segir Árni og leggur áherslu á að Ionesco nálgist viðfangsefni sitt með húmorinn að vopni.

Segir sjón sögu ríkari

Nashyrningana skrifaði Ionesco árið 1959, en það var fyrst sett upp hér á landi í Þjóðleikhúsinu 1961 og síðast sýnt fyrir 23 árum af Leikfélagi Menntaskólans við Hamrahlíð. Spurður hvort hann kunni skýringu á því hvers vegna verkið hafi ekki ratað oftar á svið hérlendis segir Árni skiljanlegt að atvinnuleikhúsin ráði ekki við það sökum fjölda hlutverka. „Þetta verk er líka dásamlegur höfuðverkur, enda flakkar það milli margra sviðsmynda. Auk þess þarf auðvitað að finna konsept til að leysa hvernig persónur verksins breytast í nashyrninga,“ segir Árni og upplýsir að allir sautján leikarar sviðsuppfærslu sinnar beri hvítar hálfgrímur. Að öðru leyti vill hann lítið gefa upp um nálgun sína og segir sjón sögu ríkari.

Meðal leikara eru Hilda Hrönn Guðmundsdóttir og Alexander Erlendsson.Tónlist er í höndum Daða Freys Péturssonar, en hann er meðlimur í hljómsveitinni RetRoBot sem sigraði í Músíktilraununum í ár. Þess má að lokum geta að sýningarfjöldi er takmarkaður, en alls verða sýndar sex sýningar á tímabilinu frá 16. til 28. nóvember.