Íþróttahúsið Gunnar Ásgeirsson stjórnarformaður Skinneyjar-Þinganess flytur ávarp sitt að viðstöddu fjölmenni á vígsludaginn á laugardaginn.
Íþróttahúsið Gunnar Ásgeirsson stjórnarformaður Skinneyjar-Þinganess flytur ávarp sitt að viðstöddu fjölmenni á vígsludaginn á laugardaginn. — Ljósmynd/Þórgunnur Þórsdóttir
Fjölmenni var við vígslu og afhendingu nýja knatthússins á Hornfirði á laugardaginn og íbúar í hátíðarskapi. Efnt var til samkeppni um nafn á húsinu og alls bárust 140 tillögur.

Fjölmenni var við vígslu og afhendingu nýja knatthússins á Hornfirði á laugardaginn og íbúar í hátíðarskapi. Efnt var til samkeppni um nafn á húsinu og alls bárust 140 tillögur. Níu ára stúlka, Salvör Dalla Hjaltadóttir, átti vinningstillöguna og nefnist húsið Báran. Nafnið hefur víðtæka skírskotun, þar má nefna bygginguna sjálfa, umhverfið og samfélagið á Hornafirði.

Dagskráin var fjölbreytt með tónlist, ávörpum, leikjum og hamborgaraveislu.

Gunnar Ásgeirsson, stjórnarformaður Skinneyjar-Þinganess, rakti aðdraganda og byggingarsögu hússins í ávarpi sínu. Til að setja stærð hússins í samhengi nefndi hann að öll sjö skip og bátar fyrirtækisins rúmuðust inni í því. Þakkaði hann öllum sem komu að undirbúningi og framkvæmd byggingarinnar og lagði áherslu á að allir aðilar hefðu lagt sig fram um að vanda til verksins. Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri tók við húsinu fyrir hönd sveitarfélagsins og þakkaði þessa einstöku gjöf. Séra Gunnar Stígur Reynisson blessaði húsið í takkaskónum.

Hornstein að byggingunni lagði Albert Eymundsson með aðstoð Ástu Ásgeirsdóttur konu sinnar en Albert er frumkvöðull að knattspyrnuuppbyggingu á Hornafirði.

Við vígsluna heiðruðu fulltrúar Knattspyrnusambands Íslands Aðalstein Ingólfsson, framkvæmdastjóra Skinneyjar-Þinganess, og Gunnar Ásgeirsson og afhentu þeim gullmerki sambandsins.

Í lokin var farið í ýmsa leiki og greinilegt að unga fólkið kunni sér varla læti að komast í svona frábæra aðstöðu til að fá útrás fyrir hreyfi- og athafnaþörf sína.

Viðstaddir fengu að sannreyna gildi hússins en það gerði úrhellisrigningu og kalda meðan á athöfninni stóð. Þessi góða aðstaða er kærkomin en frá því að byrjað var að byggja upp knattspyrnustarf á Hornafirði hefur verið lögð sérstök rækt jafnt við drengja- og stúlknaflokka, sem skilar sér í mikilli þátttöku unga fólksins.