Á toppnum Guðjón Valur Sigurðsson er hér í leik með Kiel en hann skoraði tvö mörk í stórsigri gegn Gummersbach.
Á toppnum Guðjón Valur Sigurðsson er hér í leik með Kiel en hann skoraði tvö mörk í stórsigri gegn Gummersbach. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
handbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Meistararnir í Kiel eru komnir á kunnuglegar slóðir í þýsku 1. deildinni í handknattleik.

handbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Meistararnir í Kiel eru komnir á kunnuglegar slóðir í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Kiel burstaði Gummersbach í gær, 36:19, og tók þar með efsta sætið af Rhein-Neckar Löwen, sem tapaði dýmætu stigi á heimavelli. Liðin eru bæði með 33 stig en markatala Þýskalands- og Evrópumeistaranna er miklu betri.

Leikmennirnir í þýsku deildinni þurfa að fara varlega í jólaátinu því strax á öðrum degi jóla er heil umferð og sú síðasta fyrir frí vegna HM. Toppliðin, sem er stjórnað af fyrrverandi landsliðsþjálfurum, Alfreð Gíslasyni og Guðmundi Þórði Guðmundssyni, eiga snúna leiki. Kiel sækir Flensburg heim og Löwen tekur á móti Melsungen, sem á dögunum gerði sér lítið fyrir og lagði Kiel og það á útivelli.

Það var snemma ljóst í hvað stefndi í viðureign Kiel og Gummersbach. Eftir 10 mínútna leik var staðan orðin 10:3 og úrslitin þar með ráðin. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði tvö marka Kiel og Aron Pálmarsson eitt en þeir Filip Jicha og Momir Ilic voru markahæstir með sjö mörk hvor.

„Það var mjög mikilvægt fyrir okkur að spila vel enda síðasti heimaleikurinn á árinu. Ég var ánægður með leik liðsins og það er mikilvægt fyrir okkur að Jicha sé búinn að ná sér af meiðslunum,“ sagði Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.

Löwen marði jafntefli

Ljónin hans Guðmundar Þ. Guðmundssonar í Rhein-Neckar Löwen komust í hann krappan þegar liðið mætti Göppingen á heimavelli fyrir framan 13.200 áhorfendur. Jafntefli varð niðurstaðan, 26:26, þar sem Svíinn Kim Ekdahl du Rietz jafnaði metin fyrir Löwen þegar þrjár sekúndur voru til leiksloka. Lærisveinar Guðmundar voru sterkari lengi framan af leiknum. Þeir voru fjórum mörkum yfir eftir fyrri hálfleikinn, 16:12, en liðsmenn Göppingen voru öflugir á lokakaflanum og ekki mátti miklu muna að þeim tækist að fara í burtu með bæði stigin.

Alexander Petersson skoraði fjögur mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen og Stefán Rafn Sigurmannsson tvö en Ekdahl du Rietz var markahæstur leikmanna liðsins með sjö mörk.

„Þegar upp er staðið getur maður kannski verið ánægður með stigið en ég var vonsvikinn að við skyldum ekki fara með sigur af hólmi. Við spiluðum vel í fyrri hálfleik en náðum ekki að halda sama dampi í þeim seinni,“ sagði Guðmundur eftir leikinn en lið hans hefur aðeins tapað þremur stigum í fyrstu 18 leikjum sínum í deildinni.

Kári og Fannar óheppnir

Wetzlar, lið þeirra Kára Kristjáns Kristjánssonar og Fannars Friðgeirssonar, var óheppið að ná ekki í stig gegn Hamburg en líkt og hjá Löwen var það Svíi sem var örlagavaldur en Fredrik Petersen skoraði sigurmark Hamburg þegar tvær sekúndur voru til leiksloka. Þeir Kári Kristján og Fannar skoruðu sitt markið hvor í leiknum.

Flensburg lenti í talsverðu basli með botnlið Essen á útivelli en tókst að knýja fram sigur, 27:24, og er í þriðja sæti, fimm stigum á eftir toppliðunum. Essen, sem hefur aðeins innbyrt eitt stig, var yfir í hálfleik, 13:12, en Flensburg náði að síga fram úr þegar á seinni hálfleikinn leið. Ólafur Gústafsson skoraði eitt af mörkum Flensburg.

Strákarnir hans Dags Sigurðssonar í Füchse Berlin hrósuðu sigri í Minden, 31:27, og er Berlínarliðið í fjórða sæti deildarinnar. Vignir Svavarsson skoraði eitt mark fyrir Minden í leiknum.