Organisti Fáum mun betra hljóðfæri með nýjum möguleikum, segir Björn Steinar Sólbergsson.
Organisti Fáum mun betra hljóðfæri með nýjum möguleikum, segir Björn Steinar Sólbergsson. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Þær vikur sem endurbætur á orgelinu taka verður maður sem vængstýfður fugl.

„Þær vikur sem endurbætur á orgelinu taka verður maður sem vængstýfður fugl. En ég er strax farinn að hlakka til, því í byrjun mars fáum við enn betra hljóðfæri með alveg nýjum möguleikum,“ segir Björn Steinar Sólbergsson organisti Hallgrímskirkju.

Strax eftir nýár, þegar helgihaldi jóla er lokið, mæta orgelsmiðir frá Klais í Þýskalandi í kirkjuna á Skólavörðuholti. Þeir munu taka aðalorgel kirkjunnar ofan, þar með flestar pípur þess sem eru alls 5.277. Þær verða hreinsaðar, auk þess sem einni rödd af 72 í orgelinu verður breytt. Gangvirkið verður yfirfarið og tölvubúnaður endurnýjaður, en miklar framfarir hafa orðið í þeim efnum frá því hljóðfærið var tekið í notkun fyrir réttum tuttugu árum.

„Orgelið er í mikilli notkun, því hér eru kennsla, tónleikar og helgihald alla daga. Viðgerðin er nauðsynlegt verkefni sem kostar á bilinu 25 til 30 milljónir kr,“ segir Björn Steinar Sólbergsson. Kostnað segir hann að mestu greiddan úr sjóðum Hallgrímssafnaðar. Ýmsir hafi þó lagt málinu lið, svo sem kvenfélag kirkjunnar og sömuleiðis listamenn sem fram komu á tónleikaröðinni Alþjóðlegt orgelsumar fyrr á þessu ári. sbs@mbl.is