Frí Margar fjölskyldur fá óvenjumikinn tíma saman um þessi jól.
Frí Margar fjölskyldur fá óvenjumikinn tíma saman um þessi jól. — Morgunblaðið/Ómar
Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is „Það er ekki auðvelt að skera úr um hvort það eru stóru brandajól núna eða ekki,“ segir Árni Björnsson þjóðháttafræðingur, spurður hvort svokölluð stóru brandajól séu nú í ár.

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

„Það er ekki auðvelt að skera úr um hvort það eru stóru brandajól núna eða ekki,“ segir Árni Björnsson þjóðháttafræðingur, spurður hvort svokölluð stóru brandajól séu nú í ár. Brandajól kallast það þegar leggjast saman flestir frídagar. Ef aðfangadagur er skilgreindur sem frídagur og hann ber upp á mánudag eru þeir orðnir fimm frídagarnir sem liggja saman og verða varla fleiri. „Já, það má kannski segja það, en það skiptir líka máli hvar þrettándinn lendir og ég er bara ekki búinn að reikna þetta út,“ segir Árni. „En stóru brandajól voru með öðrum hætti hér áður fyrr. Því þá var til dæmis ekki frí á laugardegi og því var gjarnan miðað við þegar fjórða í jólum bar upp á sunnudag. En það var líka með öðrum hætti þá, að hér áður fyrr var líka frí á þriðja í jólum og jafnvel fjórða í jólum og kallaðist þá fjórheilagt. Það gildir ekki það sama og fyrir 300 árum. Eitt af því sem lútersmenn gerðu við siðaskiptin var að fækka helgidögum af praktískum ástæðum svo fólk gæti unnið meira.“

Brandajól komin af eldibrandi

Elsta heimild um brandajól er í minnisgrein frá Árna Magnússyni frá um 1700. Í bókinni Sögu daganna er sagt frá þeirri tilgátu að orðið brandur gæti hæglega merkt eldibrandur þar sem þurfti að safna miklum eldivið fyrir hátíðarnar. „Það er eina skynsamlega skýringin á nafninu sem maður finnur, en hún er ekki örugg,“ segir Árni um það.

MARGIR HELGIDAGAR Í RÖÐ

Brandajól

Í Sögu daganna eftir Árna Björnsson segir: „Mjög sennilegt er að hugtakið stóru brandajól stafi frá þeim árum sem menn minntust enn hinnar gömlu fjórhelgar, nema það sé frá tímum siðaskiptanna þegar menn söknuðu fimmhelgarinnar. Á miðri 20. öld virðast menn helst hafa talið að stóru brandajól væru þegar aðfangadag bæri upp á fimmtudag.“