Fundað um ferðamál á Djúpavogi Vel mætt á fund fulltrúa ferðaþjónustunnar í Djúpavogshreppi.
Fundað um ferðamál á Djúpavogi Vel mætt á fund fulltrúa ferðaþjónustunnar í Djúpavogshreppi. — Morgunblaðið/Andrés Skúlason
Andrés Skúlason Djúpivogur | Í lok hvers árs stendur Ferðamálanefnd Djúpavogshrepps fyrir fundi með fulltrúum ferðaþjónustu í sveitarfélaginu og að þessu sinni var fundurinn haldinn á Hótel Framtíð hinn 18. des.

Andrés Skúlason

Djúpivogur | Í lok hvers árs stendur Ferðamálanefnd Djúpavogshrepps fyrir fundi með fulltrúum ferðaþjónustu í sveitarfélaginu og að þessu sinni var fundurinn haldinn á Hótel Framtíð hinn 18. des. þar sem 22 áhugasamir einstaklingar mættu til skrafs og ráðagerða um stöðu og framtíð greinarinnar á svæðinu.

Í upphafi fundar fóru formaður Ferðamálanefndar, Albert Jensson, og Ugnius Hervar Didziokas, ferða- og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps, yfir liðið ár og að hverju hefði verið unnið af hálfu sveitarfélagsins, m.a. er varðar kynningarmál og almennt bætt umhverfi til þjónustu við ferðamenn. Þá komu einnig fram hugmyndir af hálfu ferðamálanefndar um ýmis sóknarfæri í ferðaþjónustunni sem liggja á borðinu og bíða þess að verða nýtt.

Í máli einstakra fulltrúa ferðaþjónustunnar á svæðinu kom fram að árið 2012 hefði verið mjög gott og alls staðar orðið aukning í viðskiptum. Einnig kom fram sú ánægjulega staðreynd að ferðamannatímabilið væri að lengjast í báðar áttir og eru maí og september orðnir býsna góðir mánuðir í þessum efnum. Ferðaþjónustuaðilum bar einnig saman um að mun meira hefði verið af fólki á ferðinni á einkabílum en síðustu ár en sá hópur ferðamanna er eðli máls frekar til þess líklegur að stoppa við og njóta þess sem er í boði en gestir með hópbifreiðum. Þá var á fundinum rætt um ýmis spennandi tækifæri í vetrarferðamennsku sem svæðið hefur upp á að bjóða.

Óhætt er að segja að mikil eining ríki meðal fulltrúa ferðaþjónustunnar í Djúpavogshreppi sem gera sér grein fyrir að góð samvinna og samtal innan greinarinnar eru til þess fallin að styrkja þetta mikilvæga atvinnumál á svæðinu til framtíðar.