Arinbjörn Sigurgeirsson
Arinbjörn Sigurgeirsson
Eftir Arinbjörn Sigurgeirsson: "Hvað er málið, ágætu fulltrúar löggjafar- og framkvæmdavalds? Hvers vegna „slátriði“ ekki þessari óværu í þjóðfélaginu, með einfaldri lagabreytingu?"

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra tilkynnti í haust starfslok sín á Alþingi í vor og taldi upp stór mál sem hún ætlar að klára áður. Afnám verðtryggingar var ekki þar á meðal.

Jóhanna, vonandi er þetta misskilningur. Rifjað hefur verið upp í auglýsingum og greinum að þetta mál hefur í áratugi verið eitt helsta baráttu- og forgangsmál þitt á Alþingi og óþarft að rekja eða rökstyðja frekar.

Ég skora á þig Jóhanna og einnig Steingrím og aðra góða þingmenn, að klára núna það brýna verkefni að fella úr lögum heimild til verðtryggingar lána einstaklinga og fyrirtækja.

Klárist afnámið ekki á næstu vikum munu þingmenn og flokkar sem gera afnámið að kosningamáli sópa að sér fylgi í næstu þingkosningum. Eða, þarf kannski sérstakt framboð í þetta mikilvæga verkefni, lánaleiðréttingar og fleiri brýn verkefni fyrir heimili og fyrirtæki?

Stjórnarskrárvinnan er mikilvæg, en væri almenningur spurður, hvort haldið þið Jóhanna og Steingrímur að fólkið í landinu myndi setja í meiri forgang núna ; nýja stjórnarskrá eða afnám hinnar séríslensku verðtryggingar lána?

Stjórnarskrárbreytingar eru tímafrekar, en afnám verðtryggingarinnar er fljótlegt verkefni fyrir Alþingi, þótt það sé stórmál fyrir fólkið í landinu, Íbúðalánasjóð og framtíð okkar. Fyrst á því að klára afnám verðtryggingarinnar.

Jóhanna, þú ert á móti verðtryggingu og Steingrímur líka. Í Samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar ykkar eru greinilegar fyrirætlanir um að draga úr vægi verðtryggingar, með því að; 1) „óska eftir mati Seðlabankans á því hvernig best verði dregið úr vægi verðtryggingar í íslensku efnahagslífi“ og 2) „dregið verði úr vægi verðtryggingar í lánaviðskiptum samhliða auknu framboði óverðtryggðra íbúðalána“, það seinna undir yfirskriftinni „Varanleg velferð“.

Samkvæmt könnun Capacent fyrir Hagsmunasamtök heimilanna í nóvember 2011 eru 80% þjóðarinnar fylgjandi afnámi verðtryggingar á neytendalánum. Og á sex mánuðum skrifuðu tæplega 38 þúsundir nafn sitt í undirskriftasöfnun HH um afnám verðtryggingar og réttláta leiðréttingu stökkbreyttra lána.

Íbúðalánasjóður er að falla um sjálfan sig. Hann fékk lengst af bara að bjóða verðtryggð jafngreiðslulán. Þau lán kalla ég eitraðan kokkteil fyrir lántakendur og sem þeir ýmist hafa flúið með uppgreiðslum fyrir óverðtryggt lánsfé frá bönkum eða geta ekki lengur greitt af vegna stökkbreytts höfuðstóls og greiðslubyrði.

Hvað er eiginlega málið, ágætu fulltrúar löggjafar- og framkvæmdavalds? Hvers vegna „slátrið þið“ ekki þessari óværu í íslensku þjóðfélagi, með einfaldri lagabreytingu?

Hver er áhættan, hvað haldið þið að gerist? Kemur sólin ekki upp daginn eftir?

Jú, það gerist og ég er líka viss um að fólk fer þá að sjá birtuna og njóta ljóss og yls. Og heimurinn heldur áfram.

Ég er bóndasonur, frá Bjargi í Miðfirði, slóðum Grettissögu. Sigurgeir faðir minn var góð skytta sem annaðist refaveiðar fyrir sveitarfélagið og var oft fenginn til að skjóta naut og ótamda hesta, stór dýr sem gátu verið hættuleg eða ekki hægt að ná. Og því nota ég hér smá samlíkingu:

Það á að skjóta verðtrygginguna á færi og nota hanska og tangir til að færa hana í ómerkta gröf. Svo eitruð og hættuleg er þessi plága nú orðin í okkar þjóðfélagi.

Hagsmunayfirlýsing

Ég hef í dag enga persónulega hagsmuni vegna verðtryggingar á lánum. Ég er ekki með nein verðtryggð lán, sá hryllingskvóti er búinn fyrir lífstíð.

Vegna verðtryggingarinnar fór ég auk margra annarra í mínu umhverfi í gengistryggð lán. Grundvöllur þeirra reyndist ólöglegur og form þeirra breytist nú í óverðtryggð íslensk lán, þótt hægt miði og fátt bendi til að endurútreikningarnir núna verði réttir og endanlegir, samanber fyrri Morgunblaðsgreinar mínar.

Framtíðarhagsmunir mínir af afnámi verðtryggingar eru að við eignaskipti síðar get ég þurft lán hjá Íbúðalánasjóði og þá verður það að vera óverðtryggt jafngreiðslulán , með föstum vöxtum til nokkurra ára í senn eða allan lánstímann, eða breytilegum vöxtum og vaxtaþaki.

Mér er málið líka skylt með öðrum hætti, þar sem ég sat um nokkurra mánaða skeið í ráðherraskipaðri nefnd um verðtryggingarmál, með þing-, ráðuneytis- og seðlabankamönnum og fleiri góðum mönnum, undir góðri stjórn Eyglóar Harðardóttur. Mikið og tímafrekt starf; margir fundir, margir gestir, mikil umræða, texta- og skýrsluvinna, opinn kynningarfundur og annar fundur í Íbúðalánasjóði, allt í sjálfboðavinnu af minni hálfu. Á starfstímanum og eftir skýrsluskil byrjuðu bankar að bjóða óverðtryggð lán í meira mæli, sem lántakar stukku á. Og svo fékk Íbúðalánasjóður loksins lagaheimild Alþingis til að bjóða óverðtryggð lán, ekki bara verðtryggðu jafngreiðslulánin.

Takk fyrir að það varð þó einhver árangur af nefndarstarfinu.

Ókostir verðtryggingar fyrir lántaka

Auðvitað er óþarfi að rekja ókosti og önnur rök fyrir afnámi verðtryggingarinnar, þeir sem hér er skorað á þekkja þetta vel. En rétt er samt að tína saman ýmis atriði, fyrir þá og aðra sem málið varðar. Það verður gert í grein á næstunni.

Höfundur er frá Bjargi og er andstæðingur verðtryggingar lána.