María Rebekka Gunnarsdóttir fæddist á Stað í Aðalvík 3. júní 1933. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 15. nóvember 2012.

Útför Maríu Rebekku fór fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði 29. nóvember 2012.

Þegar ég frétti um andlát Mæju (Maríu) frænku minnar kom það mér ekki beint á óvart. Ég heimsótti hana tvisvar á þessu ári er ég átti ferð til Reykjavíkur og átti góða stund með henni í bæði skiptin. – Við ræddum um gamla daga þegar hún kom unglingur í sveitina til pabba og mömmu að Borgarhóli í Eyjafirði. Hún kom frá Ísafirði þar sem hún ólst upp, en hún fæddist að Stað í Aðalvík. Mér fannst spennandi að fá þessa frænku mína að vestan til sumardvalar en pabbar okkar voru bræður. – Með okkur tókst góð vinátta, sem entist alla tíð þótt við værum ekki í stöðugu sambandi.

Mæja var mikil kjarnakona, dugleg, skemmtileg og áræðin. Ég minnist þess að hún kom eitt sinn norður og hélt þessa fínu ræðu í Akureyrarkirkju á sumardaginn fyrsta á vegum skáta, en hún var þá aðstoðarskátahöfðingi. – Þegar ég 14 ára fékk að fara til Ísafjarðar að heimsækja föðurfólk mitt var ekki ónýtt að eiga Mæju að. Hún bókstaflega dekraði við mig allan tímann sem ég dvaldi þar. Hún bauð mér í bíó, sýndi mér alla skemmtilegu staðina í bænum og gerði margt fleira skemmtilegt fyrir mig, sem var ekki ónýtt fyrir sveitastúlku eins og mig.

Sem ung stúlka var Mæja dugleg að stunda íþróttir og lagði hún mesta áherslu á skíðin en á þeim árum átti Ísafjörður marga góða íþróttamenn. – Mæja var mjög sjálfstæð kona alla tíð, átti bíl og undurfagra íbúð, sem henni reyndist erfitt að yfirgefa, þegar heilsan bilaði. Hún fluttist þá á dvalarheimilið Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem hún bjó við gott atlæti síðustu misserin.

Mæja var lánsöm í lífinu, eignaðist dótturina Erlu, sem hún var stolt af. Börn og barnabörn Erlu voru henni einnig mikils virði. – Ég færi Erlu, Stefáni og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Arnheiður Jónsdóttir.