Áróra Rós Ingadóttir
Áróra Rós Ingadóttir
Eftir Áróru Rós Ingadóttur: "Það er ekki hægt að segja að einhver ein tegund sykurs sé hollari eða óhollari en önnur. Best er að neyta hans í hófi."

Nýjungar á markaðnum eins og agave-síróp, hafa náð miklum vinsældum meðal almennings og trúa margir að um holla og góða vöru sé að ræða. Agave-síróp er samt ekkert annað en sykur. Það er ekki hægt að segja að einhver ein tegund sykurs sé hollari eða óhollari en önnur. Best er að neyta hans í hófi. Það að skipta út sykri fyrir agave-síróp, hrásykur eða annarskonar sykur skiptir ekki máli. Það er einnig mikilvægt að spá í kostnað. Hvað leyfir buddan? „Hollustuvörur“ eru yfirleitt dýrari en þær vörur sem taldar eru óhollari. Samt sem áður er sykur alltaf sykur.

Er sykur tómar hitaeiningar?

Já, svo er hægt að segja um sykur sem bætt er í mat. Til að mynda þá eru 99,9 g af 100 g af sykri, tómar hitaeiningar, þ.e. hitaeiningar sem gefa okkur engin vítamín. Fjöldi hitaeininga er þó mismunandi milli sykurgerða og það sama má segja um sætleikann. Síróp og hunang innihalda meira vatn en hvítur sykur og meiri ávaxtasykur (frúktósi) þýðir almennt sætara bragð. Sykri er bætt í mat til að gefa sætara bragð. Oftar en ekki getur það leitt til þess að fólk borðar meira sem einnig eykur líkur á tannskemmdum. Þó svo að sumar tegundir gefi örlítið meira af vítamínum en aðrar þá er það í svo litlu magni. Þegar við borðum sykur er það ekki til að fá vítamínin, við getum vel fengið þau annars staðar.

Innflutningur á sírópi hefur aukist

Í kringum árið 2006 jókst innflutningur á agave-sírópi og öðrum sírópstegundum. Erfitt er að átta sig á hvort þessi aukning hefur orðið á kostnað annarra sykurtegunda. Vissulega má spyrja hvort um hreina aukningu sé að ræða en það hefur augljós neikvæð áhrif á heilsu Íslendinga.

Agave-síróp er frá Mexíkó og er unnið úr kaktusplöntunni agave. Meiri hluti agave-síróps er frúktósi. Frúktósi er jú ávaxtasykur, en í svo miklu magni getur hann haft neikvæð áhrif á líkamann. Kenningar hafa verið um að mikið magn ávaxtasykurs í fæði manna sé orsakavaldur offitu. Mikilvægt er þó að átta sig á að fleiri þættir hafa áhrif. Agave-síróp er sætara en sykur og því hægt að nota í örlítið minna magni en sykur, en líkt og hinn hefðbundni sykur eykur hann líkur á tannskemmdum. Hvítur sykur (súkrósi) er unninn úr sykurreyr. Súkrósi er samsettur úr glúkósa og frúktósa til helminga. Eins og Agave-síróp og hvítur sykur þá innihalda ávextir ávaxtasykur (frúktósa). En ráðleggingar um mataræði segja að borða eigi 5 skammta af ávöxtum á dag! Það er rétt, ávaxtasykur sem er náttúrulega til staðar í ávöxtum er betri og í mun minna magni en t.d í agave-sírópi. Ef við tökum epli sem dæmi, þau innhalda frekar hátt hlutfall ávaxtasykurs miðað við aðra ávexti. Þá þurfum við að borða um 9 meðalstór epli á dag til þess að fá 100 g eða meira af ávaxtasykri, það magn sem talið er að sé skaðlegt.

Ráðleggingar

Ráðlagt er að um helmingur hitaeiningafjölda dagsins komi frá kolvetnum. Kornmeti, grænmeti og ávextir eru dæmi um kolvetnarík matvæli. Sykrur eru hluti af kolvetnum og eru til ýmsar tegundir sem falla undir það að vera sykra, þar má nefna hvítan sykur, hrásykur, púðursykur, pálmasykur og agave-síróp. Munur er á hvort sykur er náttúrulega til staðar í mat eða honum bætt í matvörur við framleiðslu þeirra. Þó svo að sykrur séu hluti af mikilvægum flokki kolvetna er ráðlagt að neysla sykurs sem bætt er í mat sé ekki meiri en 10% af hitaeiningafjölda dagsins. Hvers vegna er sykur þá settur í mat? Það er vegna þess að hann gefur sætt bragð, ver matvæli gegn skemmdum, hjálpar til við vöxt í gerbakstri, hjálpar til í viðhaldi á náttúrulegum lit og áferð ýmissa matvæla og margt fleira. Nú þegar jólin eru að renna í garð og smákökubakstur er á fullu er líklegt að sykurneysla landans aukist. Reynum því að passa magnið sem við borðum. Fáum okkur bara eina smáköku í staðinn fyrir fimm.

Verðmunur milli sykurtegunda

Kostnaður heimila eykst oft í kringum jólin og það að borga meira en fjórfalt verð fyrir „hollari“ vöru er kannski eitthvað sem þarf að hafa í huga. Er „holla“ varan eitthvað betri þegar uppi er staðið?. Þegar við stöndum frammi fyrir því mikla vali sem matvöruverslanir landsins bjóða upp á þurfum við að hugsa aðeins út í þetta. Tvö kíló af hvítum sykri kosta um 550 kr. Til þess að fá sama magn af agave-sírópi þarftu að borga rúmar 3.000 kr. Báðar vörur eru upprunar frá plöntum og er framleiðsluferli þeirra svipað. Þessum skrifum er ekki beint gegn agave-sírópi, meira til þess að vekja umhugsun um að tegundin skiptir ekki alltaf máli. Sykur af hvaða tegund sem er þarf ekki að vera slæmur ef hans er neytt í hófi.

Munum bara að það er magnið sem skiptir máli, ekki tegund sykurs.

Höfundur er B.Sc. í næringarfræði og meistaranemi í næringarfræði við Háskóla Íslands.