[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.is Hafnarstjórn Faxaflóahafna samþykkti á fundi sínum 14.

Fréttaskýring

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Hafnarstjórn Faxaflóahafna samþykkti á fundi sínum 14. desember síðastliðinn tillögur hafnarstjóra og skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg um flutning starfsemi efnisvinnslunnar Björgunar ehf. af Ártúnshöfða og á tímabundið þróunarland Faxaflóahafna í Sundahöfn.

Samkvæmt tillögunni mun Björgun fá 50.000 fermetra landsvæði til afnota auk þess sem gert er ráð fyrir að biktönkum Malbikunarstöðvarinnar Höfða verði komið fyrir á 5.400 fermetra aðliggjandi svæði.

Gísli Gíslason hafnarstjóri segir málið enn á frumstigi, því hafi verið vísað til skipulagsráðs borgarinnar og gera þurfi umhverfismat áður en af flutningunum geti orðið. Næsta skref sé þó að taka upp formlegar viðræður við Björgun um flutningana. Hann segir ljóst að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða, til tíu til fimmtán ára e.t.v.

„Björgun er þannig fyrirtæki að það þarf að vera í nágrenni við steypustöðvar. Það er umhverfislega, skipulagslega og fjárhagslega skynsamlegt. Í dag eru þeir í næsta nágrenni við Steypustöðina og BM Vallá en á þessum tíma sem fyrirtækið gæti orðið í Sundahöfn gæti það mjög líklega gerst að steypustöðvarnar færðu sig annað og þá er ekkert endilega svo hagkvæmt að vera í Sundahöfninni. Þannig að það eru ýmsir vinklar sem þarf að hafa í huga,“ segir Gísli.

Björgun er í næsta nágrenni við Bryggjuhverfið og hafa íbúar þar m.a. kvartað yfir sandsöfnun og úrgangi frá efnisvinnslunni í innsiglingunni í hverfið. Samkvæmt núgildandi aðalskipulagi er svæðið sem spannar Ártúnshöfða og Sævarhöfða nú skilgreint sem blönduð byggð en á 25 hektara svæði eru rekin iðnarðarfyrirtæki sem falla ekki að þeirri skilgreiningu. Flutningur Björgunar yrði fyrsti liður í að flytja öll fyrirtækin; Björgun, BM Vallá, Steypustöðina og Malbikunarstöðina Höfða, af svæðinu.

Framtíðarverkefni

„Við höfum verið að vinna að þessu lágum hljóðum frá upphafi þessa kjörtímabils, að kortleggja hvar mætti koma fyrir Björgun og svona grófum fyrirtækjum á Ártúnshöfðanum. Við sjáum fyrir okkur að Ártúnshöfðinn verði mjög spennandi uppbyggingarsvæði á næstu árum og viljum þess vegna finna þessum fyrirtækjum betri stað,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi.

Hann segir liggja fyrir að starfsemi fyrirtækisins fari ekki fram í sátt við nánasta umhverfi og segist vonast til þess að málið skýrist fljótlega á næsta ári en fyrst þurfi að ná samningum. Borgin muni gefa sér góðan tíma til að vinna að deiluskipulagi á svæðinu en um langtímaverkefni sé að ræða.

„Okkar framtíðarsýn er að þetta verði blandað hverfi þar sem fléttast saman íbúðabyggð og atvinnustarfsemi. Að Bryggjuhverfið teygi sig áfram alveg inn í Elliðaárósa og verð þannig heildstæðara hverfi en jafnframt að þar sem nú eru steypustöðvarnar og Malbikunarstöðin Höfði komi líka íbúðabyggð við Elliðaárósana, á þeim stað sem er einna fallegastur í borginni. Og síðan verði þetta svona blandaðra uppi á Ártúnshöfðanum sjálfum.“

EFTIR AÐ RÆÐA ÚTFÆRSLU TILLÖGUNNAR

Aðeins bráðabirgðalausn

„Þetta er alveg í byrjunarfasa og það á heilmikil vinna eftir að fara fram áður en við sjáum hvort þetta gengur upp,“ segir Gunnlaugur Kristjánsson, forstjóri Björgunar, en hann segir viðræður enn ekki hafnar um nánari útfærslu tillögunnar.

„Við myndum náttúrlega líta á þetta sem bráðabirgðalausn. Það hlýtur að vera framtíðarlausnin að þessi starfsemi, ekki bara steypustöðvarnar og Björgun heldur t.d. Malbikunarstöðin Höfði og þessi grófa starfsemi á höfðanum, fari öll á einn stað. Þú getur rétt ímyndað þér aukinguna í þungaflutningum ef menn færu að setja þetta niður sitt á hvorum staðnum,“ segir Gunnlaugur.

Hann segir augljóst að fyrirtækið sé ekki góður nágranni íbúðabyggðarinnar í Bryggjuhverfinu, þótt úrbætur hafi verið gerðar á síðustu árum.

„Eins hlýtur borgin að skoða það að byggja upp á þessu svæði. Bryggjuhverfið er bara hálfbyggt og allt of lítið. Þar er engin þjónusta og það þarf að stækka hverfið þannig að það sé einhver grundvöllur fyrir þjónustu og skóla jafnvel.“