Auður Jóna Árnadóttir fæddist í Keflavík 13. júlí 1947. Hún lést á Landspítalanum 9. desember 2012.

Útför Auðar fór fram frá Keflavíkurkirkju 17. desember 2012.

Sterka hetjan mín er farin.

Þegar ég hugsa til mömmu sé ég hlýju og bjarta brosið hennar. Mér þótti alltaf svo gott að tala við hana um alla mögulega og ómögulega hluti sem krakki, unglingur og núna sem mamma. Faðmur hennar var svo hlýr og svo gott að fá faðmlögin hennar enda var það óspart gert.

Mamma sýndi lífi okkar systra og barnabarna svo mikinn áhuga. Eins og að mæta á fótbolta- og handboltaleiki þegar ég var krakki þegar það tíðkaðist ekki almennt og einnig var hún mætt á alla tónleika í tónlistarskólanum og mamma skutlaði mér hingað og þangað svo stelpan sín gæti nú verið í þessu öllu saman. Hún var líka alltaf með allt á hreinu um allar vinkonurnar og vinina því hún sýndi því áhuga þegar maður talaði um þau. Ég mætti einhvern veginn alltaf skilningi hjá mömmu og hún kunni að leiðbeina manni án þess að gagnrýna og var óspör á hrósið. Hún tók Pollýönnubókina fyrir mig sem krakki þegar ég átti erfitt og sagði að oft yrði henni hugsað til Pollýönnu þegar hún ætti erfitt og er það alveg ábyggilegt að það hefur hún gert mikið undanfarin ár því hún talaði alltaf um hvað hún ætti margt til að vera þakklát fyrir í stað þess að kvarta.

Ég var svo lánsöm að vinna við hlið mömmu á skrifstofu fyrirtækis þeirra í mörg ár þar sem hún kenndi mér með sinni ró og yfirvegun allt sem viðkom þeirri vinnu. Þar áttum við svo ótrúlega margar góðar stundir sem ég er svo þakklát fyrir.

Við mamma gátum setið yfir uppskriftabókum frá því ég var unglingur og pælt og prufað og ég gat alltaf hringt í mömmu til að fá ráð. Mamma spáði mikið í það hvað væri hollt og gott og var það svo mikil gjöf frá henni að vita að hún væri að gera allt sem í hennar valdi stóð til að vera hér sem lengst með okkur.

Það var á afmælisdaginn minn 24. feb. '96 sem hún fann eitthvað hart í brjóstinu sem reyndist svo vera brjóstakrabbamein en það var svo lýsandi fyrir hana að hún var svo þakklát fyrir þennan dag því það væri vegna hans sem hún væri hér enn, búin að eignast fjölda ömmubarna og langömmubörn.

Sjokkið kom svo aftur fyrir um sex árum þegar hún veiktist aftur og nú var bara hægt að halda þessu niðri, en hún var alltaf svo jákvæð og passaði alltaf upp á að vera fín og flott til fara. Við fjölskyldan vorum með henni og pabba úti í Flórída í nóvember þar sem m.a. Árni og Eva María fengu að halda upp á afmælin sín með henni á ströndinni og uppáhalds veitingastaðnum. Þetta var yndislegur og ómetanlegur tími en líka erfiður á köflum því sjúkdómurinn var að veikja hana enn meira, en ekki grunaði mig að hún yrði farin eins fljótt og raunin varð. Hvernig eiga börnin mín að skilja að amma sé farin tveimur vikum eftir að hafa verið með henni úti í Flórída þegar ég get það ekki?

Hetja og ekkert minna er það sem hún mamma mín var. Jákvæðnin, æðruleysið og húmorinn sem hún hafði alveg fram á það síðasta og heillaði starfsfólkið á spítalanum með er eitthvað sem ég mun varðveita og reyna að bera áfram til minna barna.

Elska þig að eilífu, mamma.

Þín

Lilja.

Elsku amma Auður. Ég sakna þín svo mikið. Þú varst besta amma sem hvert barn í heiminum gat óskað sér að eiga. Þú varst alltaf svo stolt af mér og ég met það mikils hve oft þú sýndir mér það. Mér fannst alltaf svo gaman að hitta þig og segja þér frá því hvað ég hafði fengið í einkunn í seinasta prófi eða hvað ég hafði gert um daginn því þú varst alltaf svo rosalega stolt af mér, en mig langar bara að segja þér elskulega amma mín að ég hef alltaf verið svo rosalega stolt af þér. Ég ætla að halda áfram að gera þig svona stolta í framtíðinni og verða eitthvað mikið og stórt. Og í framtíðinni ef ég eignast börn ætla ég alltaf að vera að segja þeim sögur af þér svo þú lifir eins stór í þeirra hjarta og þú lifir í mínu. Þú hefur alltaf verið hetjan mín og verður það alltaf. Í þessari baráttu þinni varstu svo rosalega sterk og dugleg, talaðir aldrei um hve ömurlegt þetta væri eða þess háttar, þess vegna ertu fyrirmyndin mín, elsku amma. Ég lofa að hugsa vel um afa og kíkja á hann eins oft og ég mögulega get. Við elskum þig öll svo rosalega mikið að það er erfitt að hugsa út í jólin, áramótin eða matarboð án þín, en ég veit að þú verður alltaf með okkur í minningu og í hjarta. Ég elska þig og sakna svo rosalega mikið að það er erfitt að trúa að þú ert farin, en samt finn ég alltaf fyrir nærveru þinni. Ég elska þig og sakna.

Þín

Guðrún Anna.

Elsku Auður. Okkur systur þínar í Rebekkustúkunni Steinunni langar að þakka þér fyrir allt. Hvort sem það var góða skapið, skemmtilegi hláturinn, þín góða nærvera, hlýja faðmlagið og ekki síst fyrir að vera bara þú. Hafðu þökk fyrir þetta allt og far í friði kæra systir.

Sæmi, Ella Magga, Kristín, Lilja, Íris og fjölskyldur, okkar einlægu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Rbst. nr. 11, Steinunnar,

Helga Ragnarsdóttir,

yfirmeistari.