Markavél Alfreð Finnbogason hefur raðað inn mörkum á árinu sem er að líða.
Markavél Alfreð Finnbogason hefur raðað inn mörkum á árinu sem er að líða. — Ljósmynd/sc-heerenveen.nl
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.is „Ég var orðinn pirraður og sá skotfæri þannig að ég lét bara vaða,“ segir Alfreð Finnbogason, framherji Heerenveen, sem skoraði 14.

Fótbolti

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

„Ég var orðinn pirraður og sá skotfæri þannig að ég lét bara vaða,“ segir Alfreð Finnbogason, framherji Heerenveen, sem skoraði 14. deildarmark sitt í hollensku úrvalsdeildinni þegar lið hans lagði Vitesse Arnhem, 2:1, í síðasta leik fyrir jólafrí. Skot Alfreðs var fast en þó beint á markið. „Markvörðurinn hefði átt að taka þetta en stundum dettur þetta með manni,“ segir Alfreð sem var nýlentur á Íslandi þegar Morgunblaðið heyrði í honum hljóðið.

Stoltur af árangrinum á árinu

Árið 2012 hefur verið Alfreð gjöfult en markið sem hann skoraði á laugardaginn er hans 34. á árinu fyrir félagslið. Hann skoraði fyrir Lokeren, Helsingborg og Heerenveen auk þess sem hann setti tvö fyrir íslenska landsliðið á árinu.

„Þetta ár hefur verið einstakt en það byrjaði ekki vel. Ég var kominn á endastöð í Belgíu og þurfti breytingu. Þá kom Helsingborg inn í spilið þar sem ég byrjaði ágætlega. Það var svo eftir sumarfrí sem ég eiginlega sprakk út. Síðan þá hef ég skorað nánast í hverjum einasta leik. Hjá Heerenveen tók ég upp þráðinn og hélt áfram að skora í betri deild. Ég er mjög ánægður og stoltur af þessu ári. Þetta er samt búið að vera strembið og ekki mikið frí. Því er gott að komast heim núna í skötuna,“ segir Alfreð.

Skiptir öllu máli að spila

Þegar Alfreð var kominn á endastöð hjá Lokeren í Belgíu tók hann þá ákvörðun að fara í slakari deild í Svíþjóð. Hjá Helsingborg fann hann fjölina aftur og þeirri ákvörðun sér hann svo sannarlega ekki eftir.

„Það er engin spurning. Stundum þarf maður að taka eitt skref aftur til að taka tvö áfram. Ég vissi bara að ég þyrfti að spila, maður verður að spila á þessum aldri. Hjá Helsingborg vissi ég að ég fengi stórt hlutverk. Þar fékk ég sjálfstraustið aftur því ég vissi alveg að ég gæti skorað. Þegar ég gat svo tekið stökkið aftur var það enn hærra en áður,“ segir Alfreð.

Óheppnin elt Heerenveen

Þótt Alfreð gangi allt í haginn hjá Heerenveen verður það sama ekki sagt um liðið. Alfreð er búinn að skora meira en helming marka liðsins, 14 mörk í 16 deildarleikjum og 18 mörk í 18 leikjum ef bikarinn er meðtalinn, en samt sem áður er Heerenveen í 13. sæti af 18 liðum, fjórum stigum frá fallsvæðinu.

„Í síðustu 5-6 leikjum hefur óheppnin elt okkur. Við spilum mjög fínan bolta en fáum á okkur mörk úr hornum og svona. Þetta er ekki alveg að detta með okkur og tapið í bikarnum gegn Feyenoord var pínlegt. Það var gott að vinna síðasta leikinn og halda sér frá fallsvæðinu. Það nennir enginn þarna að standa í botnbaráttu því þetta er allt of góður og flottur klúbbur fyrir það. Við komum bara sterkir inn á næsta ári og byrjum nýtt tímabil. Vonandi fáum við einn eða tvo sterka leikmenn í janúar,“ segir Alfreð.

Heerenveen betra en taflan segir

Heerenveen gekk vel í fyrra og var búist við góðu tímabili hjá liðinu. Það réð hollensku knattspyrnugoðsögnina Marco van Basten sem þjálfara en liðið er nær falli en toppnum. Alfreð telur þó að hann verði áfram með liðið.

„Það skapast alltaf einhver umræða þegar liðinu gengur illa en ég held að skilaboðin frá klúbbnum séu að hann verði áfram. Hann er bara búinn að vera fjóra mánuði í starfi og er að byggja upp nýtt lið,“ segir Alfreð sem finnst liðið of gott til að standa í þessu stappi í neðri hluta deildarinnar. Honum finnst taflan ljúga aðeins.

„Ekki spurning. Flest liðin sem mæta okkur eru smeyk því þau vita að við getum spilað mjög vel. Það er ekki mikill munur á okkur og liðunum sem eru í 6.-7. sæti. Við eigum að vera þar og gætum verið þar ef leikirnir hefðu dottið með okkur. Það er samt ekkert langt upp aftur ef við náum að vinna nokkra leiki,“ segir Alfreð Finnbogason.