Eldflaug Unha-3 skotið á loft.
Eldflaug Unha-3 skotið á loft. — AFP
Varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu fullyrðir að eldflaugaskot Norður-Kóreumanna, sem fram fór fyrr í þessum mánuði, sýni að þeir búi nú yfir nauðsynlegri tækni til þess að skjóta á loft eldflaug sem ferðast getur yfir 10.000 kílómetra.

Varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu fullyrðir að eldflaugaskot Norður-Kóreumanna, sem fram fór fyrr í þessum mánuði, sýni að þeir búi nú yfir nauðsynlegri tækni til þess að skjóta á loft eldflaug sem ferðast getur yfir 10.000 kílómetra. Samkvæmt þessu gætu því eldflaugar Norður-Kóreu náð alla leið til vesturstrandar Bandaríkjanna.

Óhætt er að fullyrða að eldflaugarskotið 12. desember síðastliðinn marki mikil tímamót í eldflaugaþróun Norður-Kóreu enda í fyrsta skipti sem þeim tekst að skjóta á loft þriggja þrepa eldflaug. Stjórnvöld Norður-Kóreu hafa haldið því fram að tilgangur eldflaugaskotsins sé einungis að koma gervihnetti á sporbaug um jörðu en samskonar flaugar geta einnig borið kjarnaodda. Hefur geimskotið því verið fordæmt víða.

Sérfræðingar á vegum varnarmálaráðuneytis Suður-Kóreu hafa rannsakað brot úr neðsta hluta eldflaugarinnar og í kjölfarið telja þeir hana geta flutt 500-600 kílóa þungan kjarnaodd 10.000 kílómetra vegalengd. Auk þess að ná til vesturstrandar Bandaríkjanna gæti eldflaug sem skotið er á loft frá Norður-Kóreu náð til allra hluta Asíu, Austur-Evrópu, Vestur-Afríku og Alaska. Án þess að koma höndum yfir frekara brak úr flauginni geta sérfræðingar ekkert fullyrt um hvort hún búi yfir þeim hæfileika að komast aftur inn í lofthjúp jarðar.