Bjarney Guðrún Jónsdóttir fæddist á Folafæti í Ísafjarðarsýslu 14. júlí 1921. Hún lést á Sjúkrahúsi Seyðisfjarðar 9. apríl 2012.

Útför Bjarneyjar fór fram frá Kirkjubæjarkirkju í Hróarstungu 14. apríl 2012.

Elsku amma, nú eru að koma jól.

Nú á aðventunni hef ég hugsað svo mikið til þín, elsku amma mín. Hugurinn fór aftur í tímann þegar við undirbjuggum jólin saman. Nú er ég að fara að gera laufabrauð í vikunni og minnti það mig á þau mörgu skipti sem við gerðum laufabrauð í sveitinni hjá þér. Í dag kaupum við alltaf tilbúnar kökur og skerum þær út en í sveitinni hjá þér hnoðaðir þú alltaf deigið og flattir út með kökukefli og skarst út kökur, svo borðuðum við afskurðinn eins og snakk. Man ég hvað laufabrauðsjárnið var mikil gersemi og meðhöndlaði maður það með mikilli virðingu og passaði sig sérstaklega á því að leggja það ekki á bitið. Þó svo við höfum ekki undirbúið jólin saman mjög lengi, eða ekkert eftir að þú veiktist, þá er minningin alltaf ofarlega í huga mér þegar líða fer að jólum. Þú varst fyrirmyndin mín og reyni ég nú að standa mig eins vel sem húsmóðir og þú gerðir. Það sem ég sakna sérstaklega úr fortíðinni eru jólaboðin hjá þér á jóladag sem voru alltaf glæsileg og er þá ansi minnisstætt þegar mamma missti vatnið í miðju jólaboði þegar hún var ólétt að systur minni sem fæddist svo þriðja í jólum. Einnig finn ég enn ilminn af heitu súkkulaðinu sem þú bauðst upp á í fallegri postulínskönnu, skreyttri blómum.

Þegar amma varð engill á himnunum há

var heimilið dapurt og tómlegt að sjá.

En óskanna stjarna á aðfangadag

mér ömmu þá sendi með himneskum brag.

(Friðrik Erlingsson)

Ég ætla að njóta aðventunnar með ljúfum minningum um þig, elsku amma mín, og ég veit þú verður hjá mér um jólin. Sjáumst síðar.

Þín

Berglind.