Brandur Þorsteinsson fæddist í Hafnarfirði 28. ágúst 1934. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 8. desember 2012.

Foreldrar hans voru Jóna Margrét Þorsteinsdóttir, Hafnarfirði, og Þorlákur Guðjónsson, Ísafirði. Brandur ólst upp hjá móður sinni og stjúpföður, Jóni M. Nordgulen.

Eiginkona hans var Perla Kristín Þorgeirsdóttir sem var fædd 20. janúar 1933 í Vestmannaeyjum og lést 4. maí 2012. Börn Brands eru:

1) Hafdís, f. 26. desember 1954, móðir hennar er Marta Sigurðardóttir. Börn Hafdísar eru: Eva Björk, f. 13. nóvember 1970, maki Juha Vainionpa. Dagrún Ellen, f. 31. júlí 1972, maki Páll Gestsson. Kristján Örn, f. 19. janúar 1978, maki Katrín Einarsdóttir og Sigurður Sveins, f. 9. júlí 1986, maki Justine Maxwell. 2) Lárus Geir, f. 7. desember 1956, kvæntur Ingibjörgu Marinósdóttur. Börn þeirra eru: Birgir Örn, f. 17. október 1979, d. 14. nóvember 2010. Íris Dögg, f. 28. janúar 1982, maki Friðgeir Örn Gunnarsson, og Hafdís Kristín, f. 9. ágúst 1984. 3) Jóna Margrét, f. 4. nóvember 1957, gift Guðbergi Ástráðssyni. Börn þeirra eru: Hildur, f. 14. júní 1984, Orri, f. 25. ágúst 1985, maki Herdís Böðvarsdóttir. Hlín f. 11. mars 1991, maki Ragnar Björnsson og Björk f. 2. maí 1997. 4) Jón Þór, f. 7. febrúar 1962, kvæntur Sif Stefánsdóttur. Synir þeirra eru: Þorgeir Arnar f. 18. júlí 1981, maki Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir og Stefán Þór f. 19. desember 1991. 5) Fríður, f. 10. október 1970, gift Guðlaugi Sæmundssyni. Dætur þeirra eru: Katrín Perla, f. 19. október 2004, og Bryndís Lára, f. 21. september 2007. Einnig átti Brandur tíu barnabarnabörn.

Brandur ólst upp í barnmörgum og fjörugum Vesturbænum í Hafnarfirði í mikilli nálægð við móðurömmu sína og afa sem og móðursystkini. Hann dvaldi einnig um tíma á Eyrarbakka og var í sveit á Skeiðum sem unglingur. Hans starfssvið var mikið tengt skipasmíðum og -viðgerðum. Vann hann í mörg ár í Skipasmíðastöðinni Stálvík, einnig vann hann í Skipasmíðastöð Njarðvíkur, Slippstöðinni á Akureyri og hjá Ráðgarði. Lengst starfaði hann þó hjá Vélaverkstæði Jóhanns Ólafs, sem verkstjóri og sá um tilboðsgerð verkefna. Hann var dugmikill og ósérhlífinn starfsmaður og gekk óhikað í öll störf. Brandur hafði gaman af ferðalögum og ferðaðist víða innanlands sem erlendis. Um langt árabil starfaði hann í Kiwanisklúbbnum Eldborg. Fyrir u.þ.b. 10 árum fékk hann hjartaáfall sem dró úr starfshæfni hans og má segja að síðan þá hafi hans líkamlega geta smátt og smátt minnkað. Lengst af bjuggu þau hjón í Hafnarfirði og fyrir tveimur árum fluttu þau á Hrafnistu þar sem þeim leið einstaklega vel.

Útför Brands fór fram í kyrrþey frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði 18. desember 2012.

Minningarnar góðar og þær ylja. Seiglan úr Vesturbænum og listfengið að vestan segja sumir. Umhverfið mótar manninn og krafturinn var mikill. Ekki mikið umleikis en samstaða, lífsgleði, bjartsýni og dugur ráða ferð. Hús byggð og þeim breytt, lóðir teknar í gegn og vinir aðstoðaðir við ýmis verk. Sköpunargáfan mikil og verkin eru víða.

Mikið örlæti, hvort sem það var sem gestgjafi á heimaslóð eða aðstoð við aðra. Stoð sem hægt var að reiða sig á og treysta. Ef um var að ræða verklegar framkvæmdir hjá fjölskyldunni þá var hann mættur í vinnugallanum og tilbúinn að láta verkin tala sem var ekki ónýtt fyrir son með nokkra þumalfingur. Stundum var ekkert skilið í endalausum íþróttaæfingum en stutt við eftir fremsta megni. Samheldni og sjálfstæði fjölskyldu honum mikilvæg. Skapað var rými og öruggt umhverfi fyrir alla. Stundum lítið sagt, ekki skammast en ljóst hverjar reglur væru. Hlýjan og öruggt athvarf var alltaf til staðar. Vellíðan fjölskyldunnar var umbun mikillar vinnu og hann alltaf tilbúinn að standa vaktina. Barnabörnin fengu að njóta gæskunnar; það var tekinn rúntur niður á bryggju og bland í poka vinsælt með Tomma og Jenna-spólu. Grillað lambalæri varð fjölskyldurétturinn á tyllidögum og þá var tekið á því eins og öðru, nóg til af öllu og kokkurinn í essinu sínu. Hann þurfti ekki að láta mikið á sér bera, talaði lítið um eigið framlag og kunni líka vel við sig í rólegu umhverfi. Oft var hlustað á klassíska tónlist – það toppaði enginn Jusse Björling og Ashkenazy. Glíman við krossgátur entist ævilangt og síðan áttu Alistair MacLean og James Bond dyggan stað í dægradvölinni. Bjástur í bílskúr var ómissandi og útskurður í tré varð stórt áhugamál þar sem handverksmaðurinn snjalli naut sín vel. Ferðalög gáfu þeim hjónum mikið og voru þau samtaka í að skoða heiminn og njóta með góðum vinum. Systkinin sjö komu til sögunnar fyrir nokkrum árum og var gaman að fylgjast með þeirri ósviknu gleði og kærleik sem það vakti. Vinnulúi gerði vart við sig með heilsubresti, uppsafnað slit erfiðrar smiðjuvinnu þar sem oft var miklum átökum beitt því að verkefni þurfti að klára. Þurfti þá að draga saman seglin. Hlýjan, væntumþykjan og traustið var þó ávallt til staðar. Síðustu ár hafa verið erfið en eins og alltaf var besta leiðin valin með hag allra að leiðarljósi, aldrei var kvartað. Hann spjaraði sig vel eftir andlát mömmu fyrr á árinu þrátt fyrir mikinn söknuð. Hann var sáttur og leið vel í sínu umhverfi, starfsfólk Hrafnistu á mikið hrós skilið. Verkstjórinn skilaði góðu dagsverki þar sem áræði og seigla réðu oft ríkjum. Hann var stór þáttur í gangverki fjölskyldunnar og þrátt fyrir að þau hjónin hafi stigið til hliðar þá verða þau áfram hluti af okkur.

Jón Þór Brandsson.

Vinur okkar, Brandur Þorsteinsson, lést á Hrafnistu 8. desember síðastliðinn. Brandur kvaddi þennan heim um það bil sjö mánuðum eftir lát ástkærrar eiginkonu sinnar, Perlu Þorgeirsdóttur.

Kunningsskapur okkar hófst þegar þær Perla og Guðbjörg hófu að vinna saman í Kaupfélagi Hafnarfjarðar árið 1975. Upp úr því myndaðist góður vinskapur milli okkar hjónanna.

Brandur hélt sextugsafmælið sitt í Portúgal. Við hjónin slógumst í förina og dvöldum syðra í tvær vikur. Afmælishátíðin tókst vel og var hin eftirminnilegasta.

Eftir þetta fórum við með Brandi og Perlu í margar ferðir til sólarlandanna, fyrst til Portúgals og síðar til Costa del Sol á Spáni. Við nutum þessara ferða mjög og sá háttur var oft hafður á að meðan við hjónin og Perla lágum í sólbaði hélt Brandur sig uppi á svölum, ýmist að lesa eða ráða krossgátur. Hann var ekki gefinn fyrir að flatmaga í sólinni. Við nutum hins vegar góðs af þessu því oft var hann búinn að laga góðan mat fyrir okkur þegar við komum inn úr sólinni. Brandur hafði gaman af því að búa til margar gerðir af mjög ljúffengum mat.

Margar ferðirnar fórum við hjónin út á Álftanes og síðar á Hrafnistu og nutum ávallt mikillar gestrisni og umfram allt góðs félagsskapar.

Nú þegar komið er að leiðarlokum viljum við þakka Brandi samfylgdina. Við vottum börnum, barnabörnum og öðrum ættingjum okkar dýpstu samúð.

Minningin um góðan dreng lifir.

Sverrir og

Guðbjörg.