Helgi Júlíus Hálfdánarson fæddist í Valdarásseli í Víðidal 19. júlí 1927. Hann lést á Sjúkrahúsi Akraness 14. desember 2012.

Úför Helga var gerð frá Borgarneskirkju 22. desember 2012.

Mig langar til að minnast Helga frænda míns frá Valshamri með nokkrum orðum. Efst í huga mér er þakklæti til hans fyrir þau ár er ég dvaldi hjá honum í sveitinni á yngri árum, þar átti ég góðar stundir. Það var alltaf tilhlökkun að komast í sveitina eftir að skóla lauk á vorin og þangað fór ég oftast í öllum mínum fríum. Helgi var alltaf tilbúinn að leiðbeina unga vinnumanninum við sveitastörfin.

Margar ferðir fór ég með honum á fjall bæði að vori og hausti. Það var alltaf gaman að vera með honum í þessum ferðum, þar naut hann sín vel og þekkti vel til. Hann var alltaf tilbúinn að fræða okkur um umhverfið og þekkti þar öll örnefni sem hann var óspar á að segja okkur hinum.

Sveitin og sveitastörfin voru hans líf og yndi og var hann ekki mikið fyrir að víkja frá þeim störfum. Þó svo að hann væri orðinn sjúklingur nú hin seinni ár og nánast bundinn heima við fylgdist hann vel með því sem var að gerast í búskapnum. Það sá ég best er ég tók þátt í sauðburði á Valshamri sl. tvö ár. Eitt sinn kom ábending frá honum um að kind gæti ekki borið í brekkunni fyrir utan fjárhúsin. Þá hafði hann verið að fylgjast með í kíkinum sínum og sá þá að eitthvað var að þarna og var fljótur að láta okkur Valla vita af því.

Alla tíð var notalegt að koma til þeirra Helga og Sveinu og alltaf tekið vel á móti manni. Hann heilsaði mér alltaf með orðunum „Sæll Sæbbi minn“ og þótti mér alltaf jafnvænt um að heyra það. Það var gælunafn sem hann gaf mér og notaði alla tíð. Elsku frændi, ég kveð þig með þakklæti í huga fyrir öll þau góðu samskipti sem við höfum átt. Ég vil votta Sveinu, Halla, Valla, Hafdísi og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð á erfiðri stundu.

Samúðarkveðjur.

Sævar Þ. Þórisson (Sæbbi).

Það mun verið hafa fyrstu árin sem við áttum heima í Borgarnesi sem við hittumst fyrsta sinn, nafnarnir, og upp hófust okkar kynni og urðu með tímanum tengsl sem fjölskyldubönd. Nafni var reyndar þá drengur í foreldrahúsum sem það heitir, eða hvort hann hefur þá verið skráður vinnumaður, en fljótlega kom í ljós að hann ætlaði sér og varð viðtakandi bóndi á bænum. Það gerðist árið 1957 og sama ár kvæntist hann sinni ágætu konu Sveinfríði Sigurðardóttur.

Það kom fljótlega í ljós að Helgi var gott efni í bónda og þegar ég, sem hef verið kunnugur þar á bæ alla tíð, lít yfir farin ár fer ekki hjá að ég meti þá kosti sem hann virtist hafa umfram aðra sem ég þekkti til, en ég þykist ekki þekkja mann sem hefur með farsælli hætti varið allri sinni ævi sem bóndi.

Um búsafurðir og annað sem tók til daglegra starfa á þeim bæ heyrðist aldrei nokkurt orð né í neinu athugavert og hefði þó ef svo hefði verið, áreiðanlega frést til næstu bæja og því er ég sannfærður um að þar hefur allt verið fullkomið.

Eitthvert sinn kemur hann að máli við mig og þarf rafvirkja. Þá var ekkert rafmagn komið um þá sveit og þess ekki von næstu árin svo bóndinn hafði lagt inn pöntun fyrir nýrri ljósavél, af bestu og fullkomnustu gerð sem þá var að fá. Var nú lagt í að rafvæða bæði bæ og önnur hús og þetta tók einhverja daga og lýsing um allt ljómaði.

Ég hafði aldrei séð nafna koma til Borgarness nema þá á traktor, en sennilega hefur það verið um líkt leyti og lagt var rafmagn í bæinn, að Helgi kemur á splunkunýjum Land-Rover dísilbíl, ekkert minna en það albesta.

Einhverjum árum seinna kemur hann enn til mín og þarf þjónustu, þá voru nokkur ár frá því fyrst var til sjónvarp og nú hafði nafni keypt sér tæki til þess brúks og þegar ég kom upp eftir þá er þetta eitt það stærsta sem ég hafði séð, heill stór skápur og innihélt bæði sjónvarp, útvarpstæki og ég held líka radíógrammófón, ekkert minna en það alflottasta.

Og einhvern tíma urðu einhver eigendaskipti á næsta bæ við Valshamar þar sem hét Háhóll og þar sem þessir bæir báðir voru að nokkru nátengdir, ég held sama aðkomuleið og lá um hlað hjá nafna, gerði hann sér lítið fyrir og keypti bara Háhól og nytjaði sjálfur og seinna eldri sonurinn.

Ég var líklega farinn frá Borgarnesi þegar að Valshamri kom svo loksins rafmagn frá samveitu og sömuleiðis missti ég af því þegar þar var byggt nýtt íbúðarhús og í það kom ég fyrsta sinn seinasta sumar og heilsaði upp á nafna, en ég hafði þó hitt hann nokkrum sinnum, einu sinni til dæmis þegar hann lá hér á Landspítala eftir hjartaskurð og einhver sinn oftar.

Þetta eru punktar frá okkar samskiptum gegnum árin, drepið á örfáa en ég segi frá vegna þess að mér finnst hann hafa alla tíð sýnt í verki hvernig á að vera bóndi.

Helgi Ormsson.