Vilhjálmur maður ársins Nei, ég er ekki að tala um Vilhjálm Egilsson eða Bjarnason. Þessi Vilhjálmur er Birgisson og er forsvarsmaður verkalýðsfélagsins á Akranesi.

Vilhjálmur maður ársins

Nei, ég er ekki að tala um Vilhjálm Egilsson eða Bjarnason. Þessi Vilhjálmur er Birgisson og er forsvarsmaður verkalýðsfélagsins á Akranesi. Vilhjálmur stendur upp úr sem verkalýðsforkólfur og aðeins hægt að nefna Aðalstein Baldursson á Húsavík í sama orðinu. Aðrir komast ekki á blað, síst forseti ASÍ sem pissaði í skó sinn nú á dögunum þegar hann stóð fyrir birtingu auglýsingar í dagblöðum. Það sem mér fannst merkilegast við auglýsinguna var ekki innihaldið heldur dagsetningin. Hún birtist sem sagt daginn sem forkólfarnir hittust, þ.e.a.s. þeir komu ekki að því að hanna auglýsinguna heldur var efni hennar troðið ofan í þá þegar þeir mættu til fundar.

Vilhjálmur Birgisson stendur þessa dagana fyrir því að láta kanna lagalega hvort verðtrygging lána, eða bara verðtrygging almennt, standist lög. Ef þú hefur verið svo vitlaus að eiga samskipti við Íbúðalánasjóð ertu í vondum málum en ef þú varst úti á galeiðunni í ævintýraleit og tókst lán í erlendum gjaldmiðli ertu í góðum málum. Þetta er galið.

Mín elskulegu. Sláum á léttari strengi. Nú eru að koma jól. Við tökum á því saman á nýja árinu. Verum góð hvert við annað. Borðum vel og mátulega mikið og neytum áfengis í hófi. Gleðileg jól.

Arnór.