Snæbjörn Ásgeirsson framkvæmdastjóri fæddist á Flateyri við Önundarfjörð 27. apríl 1931. Hann andaðist á heimili sínu 9. desember 2012.

Snæbjörn var jarðsunginn frá Fossvogskirkju 8. desember 2012.

Snæbjörn Ásgeirsson, föðurbróðir okkar, er látinn, 81 árs að aldri. Hann varð síðastur systkina sinna að kveðja þetta jarðlíf, yngstur barna Ásgeirs Guðnasonar, kaupmanns og útgerðarmanns á Flateyri við Önundarfjörð, og konu hans Jensínu Hildar Eiríksdóttur. Þau eignuðust ellefu börn og náðu átta þeirra fullorðinsaldri. Snæbjörn varð sá eini þeirra til að ná níræðisaldri.

Snæbjörn var svona frændi með stóru F, einhvern veginn nálægt okkur alla tíð. Hér áður fyrr, þegar mæður voru gjarnan heimavinnandi húsmæður, kom hann stundum við heima og drakk morgunkaffi með móður okkar og vinkonum hennar úr götunni, þá ómaði hláturinn um húsið því alltaf var líflegt þar sem Snæbjörn var. Í seinni tíð var hann orðinn nokkurs konar upplýsingaveita um frændgarðinn. Hann var tölvutengdur og í góðu sambandi við vini og ættingja og hafði mikla ánægju af því að miðla fréttum af frændfólki sínu, einkum fréttum af velgengni þess eða afrekum. Hann var virkur á fésbókinni og var duglegur að miðla þar myndum og sögum, hvort sem það var „að heiman“ frá Flateyri eða af Seltjarnarnesinu þar sem hann bjó alla tíð eftir að hann flutti ungur suður. Upplýsingamiðlunin var hans líf og yndi nú í seinni tíð og veitti honum og þeim sem nutu mikla ánægju.

Ekki er hægt að minnast Snæbjörns án þess að minnast konu hans, Guðrúnar Jónsdóttur eða Gunnu eins og við þekktum hana. Þau voru mjög samrýmd og gjarnan nefnd saman, Gunna og Snæbjörn. Þau byggðu sér hús á Seltjarnarnesi, í hennar heimahögum, sem þau nefndu Nýlendu og varð síðar að Lindarbraut númer 29 og bjuggu þar æ síðan. Þar ólu þau upp börn sín þrjú og áttu þau og afkomendur þeirra þar víst skjól. Gunna lést í ársbyrjun 2011 og varð öllum sem hana þekktu harmdauði, ekki síst frænda okkar Snæbirni. En eftir stendur góð minning um þau hjón bæði. Einkum er í fersku minni sérlega vel heppnað niðjamót haldið heima á Flateyri sumarið 2010 og áttu þau hjón þar stóran hlut að máli.

Við sendum frændsystkinum okkar, þeim Bryndísi Hildi, Jóni og Ásgeiri og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur

Oddur, Hildur, Halldór og Ásgeir Katrínar- og Eiríksbörn og fjölskyldur þeirra.

Oddur Eiríksson.

Ég var svo heppin að fá að kynnast þér, elsku Snæbjörn.

Ég var ekki há í loftinu þegar ég fór að koma til ykkar Gunnu í Nýlendu með henni Guðrúnu barnabarninu ykkar. Þið voruð náttúrlega með þennan æðislega garð sem á þeim tíma var svo rosalega stór í augum okkar að þetta var eins og risaleikvöllur og ég tala nú ekki um kofann í garðinum sem við vinkonurnar lékum okkur í. Einnig er það ofarlega í minningunni, þegar maður fer að rifja upp gamla tíma, þegar við Guðrún fengum að fara í sparistofuna að hlusta á plöturnar sem þið Gunna áttuð.

Það var alveg hreint yndislegt að koma til ykkar hjóna og alltaf leið manni vel. Þú hafðir alltaf skemmtilegar sögur að segja manni og ekki vantaði húmorinn í þig sem gerði þetta allt saman miklu miklu skemmtilegra. Núna í seinni tíð hitti ég þig alltaf reglulega og alltaf var faðmlagið þitt jafn notalegt, var líka rosalega gaman að fylgjast með þér á Facebook þar sem þú varst virkur og maður fékk skemmtilegar kveðjur frá þér.

Elsku Snæbjörn minn, þín verður sárt saknað en minningin um góðan og yndislegan mann mun lifa með mér og öllum sem fengu þann heiður að kynnast þér.

Ég votta fjölskyldunni þinni mína dýpstu samúð og megi guð veita þeim góðan styrk í gegnum þennan erfiða tíma.

Sárt er vinar að sakna.

Sorgin er djúp og hljóð.

Minningar mætar vakna.

Margar úr gleymsku rakna.

Svo var þín samfylgd góð.

Daprast hugur og hjarta.

Húmskuggi féll á brá.

Lifir þó ljósið bjarta,

lýsir upp myrkrið svarta.

Vinur þó félli frá.

Góða minning að geyma

gefur syrgjendum fró.

Til þín munu þakkir streyma.

Þér munum við ei gleyma.

Sofðu í sælli ró.

(Höf. ók.)

Helga Sólveig

Aðalsteinsdóttir.