Guðmundur Sigurðsson fæddist í Reykjavík hinn 8. janúar 1944. Hann lést á heila- og taugaskurðlækningadeild Landspítalans í Fossvogi 14. desember 2012.

Útför Guðmundar fór fram frá Bústaðakirkju 20. desember 2012.

Gummi minn, margs er að minnast þar sem rúmlega fjörutíu ár eru frá okkar fyrstu kynnum. Það er ótrúlega erfitt að þurfa að kveðja þig þegar þú ert loksins búinn að fá bót meina þinna eftir hjartaaðgerð og andlega hliðin búin að vera góð síðan þá. Ég hef stundum hugsað um það hvernig þú myndir líta út sem gamall maður, en ég sá alltaf fyrir mér að þú myndir lifa mig og að dætur okkar myndu þá gæta þín.

Dagurinn 22. nóvember síðastliðinn rennur mér aldrei úr minni, á leiðinni upp á spítala gerði ég mér enga grein fyrir hversu alvarlega slasaður þú varst. Þú sýndir nú viðbrögð við „gömlunni þinni“ þegar við hittum þig fyrst á gjörgæslu en eftir það gátum við bara vonað að þú myndir ná fullri meðvitund aftur.

Flest okkar búskaparár bjuggum við í Þorlákshöfn og þar ólust dætur okkar upp og áttu sín uppvaxtarár. Fluttum svo 1997 til Reykjavíkur í Engjaselið en þar gat stórfjölskyldan komið saman og átt notalegar stundir hjá okkur. Á einum tímapunkti bjuggum við t.d. ellefu saman í heimili þegar eldri dætur okkar voru á milli íbúða og mamma þín bjó líka hjá okkur. Við höfum bæði átt við veikindi að stríða og einhvern veginn alltaf náð að styrkja hvort annað í gegnum þau. Þú hefur verið mín stoð og stytta og hjálpað mér í gegnum óteljandi hluti og atburði. Ekki þurfti annað en að spyrja þig hvenær ákveðnir atburðir áttu sér stað þá varstu með dagsetningu og ártal á hreinu.

Ótrúlegustu setningar ultu stundum út úr þér, ég man sérstaklega eftir einu skipti þegar ég hafði litað hárið á mér og dekkt það talsvert, en við vorum í lyftu, þá sagðir þú: „Hafdís, hárið þitt er svipað og Ólafs Ragnars í Næturvaktinni með nýja hárlitinn.“

Við fórum oft í gönguferðir með vinum þínum og drukkum kaffi í Kolaportinu, kíktum á Austurvöll og fleiri ljúfa staði í miðborginni. Við hétum hvort öðru 5. júlí 1969 að styðja hvort annað í blíðu og stríðu og það höfum við svo sannarlega gert. Auðvitað skiptust á skin og skúrir hjá okkur öll þessi ár, en seinni árin þegar við höfum notið góðra stunda í félagsskap barna og barnabarna okkar, vona ég að þær verði fjársjóðurinn sem við skiljum eftir handa þeim. Huggun mín á þessum erfiða tíma er að foreldrar þínir hafi tekið vel á móti þér þegar þú varst tekinn frá mér, dætrum okkar og þeirra fjölskyldum. Ég mun halda minningu þinni á lofti, elsku Gummi minn.

Þín alltaf,

Hafdís.

Pabbi, manstu símtölin okkar sem voru daglega nema á álagstímum í skólanum. Þá bættum við okkur það upp með því að taka lengra spjall að þeim loknum. Ég fékk einkunn út úr verkefni, eftir slysið, og þá helltist yfir mig mikil sorg því þú hefur alltaf verið sá fyrsti sem ég hringi í þegar ég fæ einkunnir. Samtöl okkar eru mér dýrmæt og allar staðlotur þar sem ég kíkti í heimsókn til þín, stundum með sérbakað vínarbrauð handa þér og rúnnstykki handa mér.

Í dag hafði ég útsýni yfir uppáhaldsgöngustaðinn þinn, hjá sjónum við Sæbrautina. Það er ótrúlegt að þú eigir ekki eftir að ganga leiðina þína aftur en þú gekkst allra þinna ferða og kallaðir þetta smá spotta til að taka strætó. Þú gættir vel að mér í kringum sykursýkina og ég hef ekki alltaf hlustað en með hækkandi aldri og auknum þroska hefur heyrnin lagast, þar sem ég reyni að hlýða þér, elsku pabbi. Reynsla mín af þínum geðræna sjúkdómi hefur líka verið dýrmæt og hún er hluti af því að þroska mig umfram aldur minn. Að hugsa sér að einungis er ár liðið frá hjáveituaðgerð þinni þegar þetta áfall dynur yfir 22. nóvember síðastliðinn.

Þú varst svo duglegur eftir aðgerðina og þú varst farinn að trítla með mér eftir göngunum á hjartadeildinni þremur dögum eftir aðgerð. Þú varst í einu orði sagt ótrúlegur! Eftir slysið komum við inn á gjörgæslu og þú sýndir lítil viðbrögð þegar hjúkrunarfræðingarnir töluðu við þig, en þegar mamma, sem liggur frekar hátt rómur, sagði: „Gummi minn!“ þá leistu til okkar og svaraðir já og nei við spurningum þó það væri örlítið drafandi. Svo fjaraði athyglin út og það kvöld þurfti að tengja þig við öndunarvél, eftir það náðum við ekki sambandi við þig svo hægt væri að greina skýr viðbrögð. Þú opnaðir þó augun og þú áttir þér einskis ills von þegar ég, miðlungurinn þinn, hélt uppi einræðusamtölum eins og þú værir þátttakandi. Þetta var mín leið til að sigra sorgina þegar ég þurfti að horfast í augu við að sjá þig svona mikið slasaðan.

Þórey Katla fékk góðan tíma með þér og fékk að tromma á potta og leika hjá ykkur mömmu þegar hún var lítil og hún talar mikið um allt sem afi gerði fyrir hana. Stefán Ingi mætti oft með þungan bókabunka, fleygði á sófann og sagði: „Afi, koddu að lesa.“ Eftir slysið fjölgaði kvöldbænunum hans úr 2 í 8 á hverju kvöldi og alltaf er beðið fyrir afa Gumma í lokin og við ræðum um að nú ætli guð að gæta þín. Ég er svo glöð að nestisferðin, sem við fjölskyldan fórum í janúar, situr honum í minni en við komum strax á eftir til þín þar sem þú dvaldir á Reykjalundi eftir aðgerðina. Þú sagðist vera á lúxushóteli og starfsfólkið væri frábært. Síðastliðið ár varstu hressari að öllu leyti og ég held að allir sem þig þekktu hafi verið því sammála. Þú hafðir alla tíð verið í fantaformi og Anna hjúkrunarfræðingur á gjörgæslu ætlaði að fá uppgefið hvaða hrukkukrem þú notaðir. Þú hugsaðir um okkur á undan sjálfum þér og spurðir alltaf hvernig gengi hjá barnabörnunum og sagðir svo: „Kysstu þau frá mér.“ Ég sakna þess að tala við þig og heyra röddina þína.

Þín

Halldóra Björk.