Tryggvi V. Líndal
Tryggvi V. Líndal
Frá Tryggva Líndal: "Nú hefur Norður-Kóreumönnum loks tekist að skjóta eldflaug með gervitungli á sporbraut umhverfis jörðu."

Nú hefur Norður-Kóreumönnum loks tekist að skjóta eldflaug með gervitungli á sporbraut umhverfis jörðu. Þetta eru váleg tíðindi fyrir friðinn í heiminum, vegna þess að það sýnir að fátæk þjóð getur bæði komið sér upp kjarnorkusprengjum og burðartækni til að koma þeim á áfangastað hvar sem er í heiminum. En þá er ekki loku skotið fyrir það að mörg önnur ríki fari að fordæmi hennar; með þeim afleiðingum að aðeins sé tímaspursmál hvenær kjarnorkuvopn verði svo útbreidd, að ómögulegt verði að forða heiminum frá margfalt meiri stríðseyðileggingu en áður hefur þekkst.

Enn sem komið er má þó telja kjarnorkuveldin á fingrum beggja handa; en það eru Bandaríkin, Rússland, Frakkland, Bretland, Kína, Indland, Pakistan, Norður-Kórea og Ísrael.

Miklu skiptir fyrir trú á heimsfriðinn að handhafar kjarnorkuvopnanna séu ríki sem hafa langa og trúverðuga sögu stöðugleika að baki. Þetta á við um Bandaríkin, Bretland og Frakkland, en ekki um Rússland, Kína, Indland, Pakistan, Norður-Kóreu og Ísrael.

Alvarlegast er þó fyrir okkur Íslendinga að helsta óstöðuga kjarnorkuveldið er við bakgarðinn hjá okkur; nefnilega Rússland. En það land hefur áður beint kjarnorkuflaugum sínum að Íslandi og ef líklegt er að heimurinn lendi í kjarnorkustyrjöld á næstu áratugum er sennilegast að Ísland verði fyrir hvað mestum skaða frá því ríki.

Raunar má segja að svo líklegt sé að gereyðingarmáttur kjarnorkustyrjalda hitti Íslendinga fyrir á næstu áratugum að barnalegt sé að láta eins og sú framtíð snúist einkum um hagvaxtarörvun, umhverfisvernd eða Evrópusambandsaðild; ef ætla megi að eftir hálfa öld búi hér í besta lagi fámenn, sjúk og fátæk þjóð, í kjölfar eitrunar kjarnorkustríðs; og skiptir þá víst litlu máli hvort hún tali ennþá íslensku og verði sjálfstæð íslensk bókaþjóð.

Líkt og í kalda stríðinu munu flestir okkar vilja humma þessa ógeðfelldu framtíðarsýn fram af sér. En reynslan kennir okkur þó að ekkert fæst að gert ef við fljótum sofandi að feigðarósi: Ef við fáum eitthvað að gert verður það líklegast í skjóli Bandaríkjanna og Nató og Evrópusambandsins.

Og við þurfum strax að byrja á því að fylgjast með þróuninni í kjarnorkuvígbúnaðarmálum aftur.

Ég vil enda þessi inngangsorð með því að birta brot úr ljóði eftir mig í Stúdentablaðinu 1984. Það heitir Sálmur fyrir árið 2084 og er lýsing á kjarnorkuárás. Það var svo endurbirt í ljóðabókinni minni Trómeti og fíóli, frá 1992. En þar segir meðal annars:

Elstu menn mundu ekki / annað eins tíðarfar; / máttu ekki um frjálst höfuð strjúka / fyrir fljúgandi húsgögnum, / mjólkurkúm og blikkbeljum, / konum og dætrum náungans.

Og ljósið brenndi burt kynþættina, / gerði vopnin að fornleifum / en mennina að hráefnum. / Og Guði fannst það harla gott / og lét nýjan snjó falla / með nýjum fyrirmælum.

TRYGGVI V. LÍNDAL,

skáld og menningarmannfræðingur.

Frá Tryggva Líndal

Höf.: Tryggva Líndal