<strong>Olga Marta</strong> &bdquo;Nota aldrei hjól við útskurðinn, heldur hef ég mjög gaman af að móta eitthvað og skapa með vasahnífnum.&ldquo;
Olga Marta „Nota aldrei hjól við útskurðinn, heldur hef ég mjög gaman af að móta eitthvað og skapa með vasahnífnum.“ — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Atli Vigfússon Laxamýri „Það er mjög gaman að vera í laufabrauði og stundum fer ég á bæi til þess að taka þátt í því að skera brauðið. Ég man eftir mér pínulítilli að skera og því hefur áhuginn verið lengi.

Atli Vigfússon

Laxamýri

„Það er mjög gaman að vera í laufabrauði og stundum fer ég á bæi til þess að taka þátt í því að skera brauðið. Ég man eftir mér pínulítilli að skera og því hefur áhuginn verið lengi.“

Þetta segir Olga Marta Einarsdóttir, bóndi á Einarsstöðum í Þingeyjarsveit, en hún hefur eins og margir aðrir verið önnum kafin við jólaundirbúninginn. Hjá henni eru laufabrauðsdagarnir fleiri en hjá flestum öðrum.

„Ég nota aldrei hjól við útskurðinn heldur hef ég mjög gaman af að móta eitthvað og skapa með vasahnífnum,“ segir Olga Marta, en hún mótar meðal annars kirkjur, krossa, lauf og stjörnur í kökurnar.

Nýlega gerði hún laufabrauð með stórfjölskyldunni, um það bil 300 kökur. Hún fór svo á tvo aðra sveitabæi til þess að taka þátt í skurðinum og var aufúsugestur því ekki gera allir eins kökur. Þetta auðgar listina og brauðið verður margvíslegt í útliti.

Persónulegur stíll

Laufabrauð er séríslenskt brauð sem var lengi vel bundið við Norðurland en siðurinn hefur dreifst um landið. Það er mjög þekkt á Norðurlöndum að gera eitthvert fallegt hátíðarbrauð. Fyrr á öldum var stundum mikill skortur á mjöli og hveiti á Íslandi og því gerðu margir kökurnar þunnar til þess að spara og gera þær fleiri svo allir fengju sinn skammt. Ástæðan var einnig sú að kökurnar geymdust betur en þykk brauð og töluðu sumir um að þær þyrftu að vera næfurþunnar þannig að hægt væri að lesa í gegnum þær.

Laufabrauðsskurðurinn er oft mjög persónulegur og afbrigðin margvísleg. Margir nota hjól nú til dags við skurðinn, en þeir eru líka margir sem vilja halda í þá hefð að nota vasahnífinn, enda gefur hann mun meiri möguleika í þeirri listsköpun sem fram fer.

Fyrr á árum var það mikið verk að fletja út, en það hefur færst í aukana að fólk kaupi kökurnar og fái þær útflattar. Sumir fullorðnir segja þær kökur sem fást í búðunum ekki eins og gamla laufabrauðið á bæjunum, en yngra fólkið lætur sér vel lynda.

Hver laufkaka listaverk

Laufabrauðsgerð er mjög mikil í Þingeyjarsýslum í dag og byrja margir seinast í nóvember til þess að vera búnir í tæka tíð fyrir jól. Sérstaklega á það við um þær fjölskyldur sem gera mjög mikið magn og víða eru haldin ættarmót í laufabrauðsgerð á aðventunni.

Olgu Mörtu finnst þetta skemmtilegur tími og hún vill hafa kökurnar góðar á bragðið. Hún er lengi að skera hverja köku eins og í gamla daga þegar fólk skar út sveitabæi, en vandvirkni krefst mikils tíma. Hún myndi gjarnan vilja hafa kökurnar stærri að flatarmáli og þá myndi hún vilja skera út í þær heil jólaþorp í allri sinni dýrð með kirkju og mörgum stjörnum.

Laufabrauð

» Laufabrauð er næfurþunn og stökk hveitikaka sem er mikilvægur hluti íslenskra jóla og þorrans.
» Ekki er vitað hvenær farið var að gera laufabrauð. Minnst er á það í orðabók Jóns Ólafssonar frá Grunnavík frá fyrri hluta 18. aldar.