Á Þorláksmessu Það var hátíðleg stemning í miðbæ Reykjavíkur á tíunda tímanum í gærkvöldi þar sem fjöldi fólks var saman kominn.
Á Þorláksmessu Það var hátíðleg stemning í miðbæ Reykjavíkur á tíunda tímanum í gærkvöldi þar sem fjöldi fólks var saman kominn. — Morgunblaðið/Golli
Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is Margt fólk var í miðbænum á Þorláksmessu og verslunarmenn almennt ánægðir með traffíkina. Fæstir vildu fullyrða ennþá að salan væri meiri en í fyrra en sumir voru á því.

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

Margt fólk var í miðbænum á Þorláksmessu og verslunarmenn almennt ánægðir með traffíkina. Fæstir vildu fullyrða ennþá að salan væri meiri en í fyrra en sumir voru á því. Á Ingólfstorgi var jólamarkaður þar sem Svanur Kristjánsson hafði komið sér fyrir og seldi ristaðar möndlur. „Þetta rokselst,“ sagði Svanur. „Ég kynntist þessu í Danmörku og fór síðan að selja þetta hér eftir að ég flutti heim.“

Það eru fallegir sölubásar á torginu og flestir hæstánægðir með söluna. „Þetta er búið að vera brjálæði,“ segir Hrönn Sigurðardóttir sem selur eigin hönnun undir merkjum Kusk. „Ég vinn til fjögur á nóttinni við að sauma og sef til átta en þá fer ég á fætur til að sauma meira og svo er ég komin hingað upp úr hádegi að selja. Þetta hefur gengið ofsalega vel í ár.“

Á miðju torginu höfðu krakkar og fullorðnir hópast í kringum jólasveininn sem hrekkir börnin. Hann segir þó í stuttu spjalli við Morgunblaðið að börnin séu óskaplega þæg í ár og Grýla fái ekkert í pottinn sinn. „Lagerinn af kartöflunum er því orðinn alltof stór hjá okkur þar sem börnin eru svo þæg,“ segir jólasveinninn. „Leppalúði skóflar þeim í sig, en það er ekki nóg.“

Þótt börnin séu skríkjandi við Ingólfstorgið eru þau andaktug við Pósthússtræti þar sem lúðrasveitin Svanur spilar svo hátíðlega tónlist að allir horfa í lotningu á hljómsveitina við tröppur Landsbankans.

Aðfangadagurinn lúmskur

Í bókabúð Eymundsson var troðið af fólki þar sem margir voru á elleftu stundu við að kaupa jólagjafirnar. „Maður sér til eftir morgundaginn en það kæmi mér ekki á óvart að það væri meiri sala núna í ár en í fyrra,“ segir Svanborg Þórdís Sigurðardóttir bóksali. „Aðfangadagurinn er eftir og hann er oft lúmskur. Menn koma mikið hérna milli klukkan 11 og 13 á aðfangadag. En það hafa selst upp margir titlar eins og Ævisaga ð og bókin Skáld eftir Einar Kárason er að klárast.“

Tóbías Ingvarsson, 10 ára, segist aðspurður ekki vera búinn að kaupa jólagjafirnar – sé búinn að kaupa svona 87% af þeim.

„Helst Cheerios, annars Cocoa Puffs með kampavíni eins og Abba fékk sér í Brighton árið 1974,“ segir Óttarr Proppé borgarfulltrúi í óspurðum fréttum. „Er það ekki rétta svarið við spurningunni sem þú átt eftir að spyrja mig?“ segir hann kankvís við blaðamann.