Hýlegt Ólöf er mikil smekkmanneskja þegar kemur að jólaskreytingum og arininn er heldur betur jólalegur.
Hýlegt Ólöf er mikil smekkmanneskja þegar kemur að jólaskreytingum og arininn er heldur betur jólalegur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hún er tveggja heima kona sem býr mestan part ársins í New York en á líka fallegt heimili á Íslandi. Ólöf Kristjánsdóttir er mikil jólakona sem býr til sitt eigið jólakonfekt og lætur sig ekki muna um að taka á móti þrjátíu gestum í mat.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég bað frænku mína að kippa með sér tré fyrir mig þegar hún fór í Skógræktina að höggva eitt slíkt fyrir sjálfa sig. Þau mættu svo hér stórfjölskyldan með fjögurra metra hátt tré á pallbíl og höfðu með sér sög og klippur. Öðruvísi var ekki hægt að koma trénu inn. Við þurftum að saga af því toppinn svo það gæti staðið í stofunni. Að öllu þessu loknu héldum við hátíð hér og glöddumst yfir trénu, drukkum heitt kakó og gæddum okkur á smákökum,“ segir Ólöf Kristjánsdóttir sem búið hefur í New York undanfarin tíu ár ásamt manni sínum en fyrir þremur árum fæddist þeim sonurinn og gleðigjafinn Gabríel.

Hefð fyrir heitum rjómasoðnum grjónagraut í eftirmat

Ólöf á tvöfalt af öllu jólaskrauti, því hún skreytir auðvitað líka heimili sitt úti í New York. „En ég skreytti minna þar, mest með greni og stórum jólastjörnum. Við höfum haldið jól úti í Bandaríkjunum en mér finnst hátíðlegra hér á Íslandi yfir hátíðirnar. Fólk sem við þekkjum úti gerir ekki svo mikið úr jólunum, en aftur á móti er þakkargjörðarhátíðin miklu meiri hátíð þar.“ Ólöf býr sjálf til sitt jólakonfekt og ekkert lítið af því. „Ég geri fjórfaldar og fimmfaldar uppskriftir og maðurinn minn hefur kvartað mikið yfir konfektgerðinni í gegnum tíðina, af því að ég býð allt of mörgum að taka þátt og þá er súkkulaði út um allt,“ segir Ólöf sem á von á gestum um hátíðirnar. „Við erum með opið hús á Þorláksmessu, svo verður fimmtán manna matarboð hjá okkur á aðfangadagskvöld með fjölskyldumeðlimum. Svo er annað jólaboð milli jóla og nýárs tengt föðurfjölskyldu mannsins míns og þá eru um þrjátíu manns. Sennilega verður svo áramótaveisla hér fyrir vini okkar. Það er yndislegt að koma heim til Íslands og fá til sín gesti.“ Villibráð og kalkúnn er gjarnan á borðum um jól hjá Ólöfu en einni hefð er ekki hnikað í matnum. „Það er sterk krafa um heitan grjónagraut í eftirrétt sem soðinn er í rjóma. Ég ólst upp við hann og við kunnum öll vel að meta hann. Í honum er auðvitað mandla og sá sem fær hana hreppir möndlugjöfina. Gamaldags rækjukokkteill er líka fastur liður í forréttinum.“