Sigurður Rúnar Ragnarsson
Sigurður Rúnar Ragnarsson
Er jólin ganga senn í garð, við gleðjumst yfir því sem varð, á helgri hátíð nú. Á jólum fæddur Jesús var á jörðu er fagnað allstaðar, og þessu fagnar þú. Við ljóssins hátíð höldum hér, þar heilög birta skín við mér, og englar syngja söng.

Er jólin ganga senn í garð,

við gleðjumst yfir því sem varð,

á helgri hátíð nú.

Á jólum fæddur Jesús var

á jörðu er fagnað allstaðar,

og þessu fagnar þú.

Við ljóssins hátíð höldum hér,

þar heilög birta skín við mér,

og englar syngja söng.

Úr fjárhúsinu birtu ber,

á barnið sem að nýfætt er

nú er ei nóttin löng.

Á andartaki allt varð bjart,

er flýði næturhúmið svart,

því geisla sló á grund.

Í fjárhúskofa friður var

með fjárhirðum sem komu þar

og staldra við um stund.

Hver atburðurinn annan rak.

hvert afdrifaríkt andartak,

var allt af Guði gert.

Þá hæst bar fæðing frelsarans;

er fæddist Guð í líking manns.

Og það varð opinbert.

En englakórinn söng af sál,

sjálf dýrin fengu mannamál,

svo helg er hátíð sú.

Og fjárhirðarnir fögnuð þann,

fluttu inn í sérhvert rann.

Því Guð nú gaf þeim trú.

Því frelsarinn nú fæddur var,

er fróða menn að garði bar,

í jötu Jesús lá.

Og fögnuði þeir fylltust þar,

þeir fengið höfðu bænasvar.

Þar frumburð fengu að sjá.

En fæðing Drottins blessun bar,

boðin lýð til fagnaðar,

sem barst um heiminn brátt:

Drottinn, er fæddur í Davíðs borg!

Dýrð sé Guði um stræti og torg!

Fögnum í friði og sátt.

Heilög jólin gaf þér Guð,

er gæska hans var fullkomnuð.

Hann gaf oss sáttargjörð.

Enn vill hann gefa þér gleðileg jól,

Guð er við syngjum Heims um ból,

Því helg er hátíð á jörð.

Höfundur er sóknarprestur í Norðfjarðarprestakalli.