Stjórinn Samúel Jón Samúelsson.
Stjórinn Samúel Jón Samúelsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tveir geisladiskar með Samúel J. Samúelsson Big Band. SJS Music gefur út.

Stórsveit Samúels Jóns Samúelssonar hefur gefið út 4 hliðar , tveggja geisladiska útgáfu eða fjögurra hliða vínil. Diskarnir eru rökrétt framhald af hinni frábæru Helvítis fokking funk sem kom út sumarið 2011. Tónlistin er öll eftir Samúel, sem auk þess útsetur og stjórnar apparatinu, 18 manna stórsveit. Líkt og áður er tónlistin undir margvíslegum áhrifum, m.a. frá nígerísku afróbíti, eþíópískum djassi, bandarísku fönki og stórsveitadjassi. Helsta breytingin frá Helvítis fokking funk er að Samúel hefur enn meira sjálfstraust en áður. Hann lætur vaða. Lögin eru lengri og þau fá tíma til að þróast í meðförum meðlima sveitarinnar. Fyrstu viðbrögð eru að það séu meiri djassáhrif í fönktónlistinni. Gott dæmi um djassáhrifin er lokalagið Peace, fallegur sálmur (með yndislegum flygilhornsleik Kjartans Hákonarsonar) í anda Brass Fantasy og fleiri, sem sýnir ágætlega hvað djassinn á mikil ítök í Samúel. Segir ekki þjóðsagan um þessar tónlistarstefnur: „Jazz is the teacher and funk is the preacher“? Enn sem fyrr er stórsveitin samansett af frábærum tónlistarmönnum. Mestan þunga ber rytmasveitin, sem Ómar Guðjónsson gítarleikari, Ingi S. Skúlason bassaleikari og Helgi Svavar Helgason trommuleikari leiða ásamt Sigtryggi Baldurssyni á slagverk og Hannesi Helgasyni á hljómborð, þeir eru svakalega þéttir. Blásaradeildin skilar svo sannarlega líka sínu, enginn lúðrasveitarhljómur hér! Það er helst að það sé skortur á alvörusólistum öðrum en Óskari Guðjónssyni saxófónleikara. Maður saknar Jóels Pálssonar á diskunum en hann var mættur á útgáfutónleikunum á fimmtudagskvöldið, mörgum til mikillar ánægju. Afróbít-stórsveitarfönk Samúels Jóns Samúelssonar er nú orðið vel þekkt. Freistandi er að segja að hann og stórsveitin sýni allar sínar bestu hliðar á þessum diskum. Umslögin utan um diskana eru glæsileg, smart og svöl í anda Samúels en heiðurinn af þeim á Hrafn Gunnarsson. Það er eitt og sér afrek að gefa út tónlist og reka 18 manna stórsveit. Þegar það er jafnvel gert og hér þakkar maður bara fyrir sig.

Örn Þórisson

Höf.: Örn Þórisson