Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Fæðingar- og foreldraorlof mun lengjast og greiðslur munu hækka, frumvarp þess efnis var samþykkt frá Alþingi á síðasta þingdegi fyrir jól. Þakið, hámarksgreiðslur til foreldra, mun hækka úr 300 í 350 þúsund krónur.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Fæðingar- og foreldraorlof mun lengjast og greiðslur munu hækka, frumvarp þess efnis var samþykkt frá Alþingi á síðasta þingdegi fyrir jól.

Þakið, hámarksgreiðslur til foreldra, mun hækka úr 300 í 350 þúsund krónur. Þá verður fæðingarorlofið lengt úr 9 mánuðum í 12. Það verður gert í skrefum og tekur fullt gildi árið 2016.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar segir að meirihluti nefndarinnar sé samþykkur frumvarpinu en vill breyta fyrirkomulagi lengingarinnar. „Þannig að sjálfstæður réttur foreldra sé fimm mánuðir og sameiginlegur réttur tveir, þegar lögin hafa tekið gildi að fullu,“ segir Sigríður. Hún segir það mæta betur jafnréttishugsjón laganna en jafnframt veita fjölskyldum sveigjanleika í því hvernig þær taka fæðingarorlofið.

Frumvarpið gerir ráð fyrir fjórum mánuðum fyrir foreldri, hvort um sig og fjórum sameiginlegum mánuðum.

Velferðarnefnd leggur einnig til að einhleypar mæður sem fara í tæknifrjóvgun, og einhleypir einstaklingar sem ættleiða börn eða taka barn í varanlegt fóstur fái fullt fæðingarorlof. „Við viljum að þau börn njóti sömu tækifæra til samvista við foreldra og önnur börn,“ segir Sigríður og áréttar að þessi breyting hafi verið lögð fram í frumvarpi sem Guðfríður Lilja Grétarsdóttir lagði fram á síðustu þingum.

Þá bendir nefndin einnig á að erfitt sé fyrir foreldra að brúa bilið frá því barn nær 18 mánaða aldri og þar til það kemst inn á leikskóla, oftast við tveggja ára aldur. Hún telur því æskilegt að foreldrar geti tekið orlof með barninu til 24 mánaða aldurs í stað fyrstu 18 mánaða.

Fært til fyrra horfs

Gripið var til sparnaðaraðgerða í kjölfar efnahagshrunsins en með þessu frumvarpi er stigið skref í átt að því að færa reglur um fæðingarorlof aftur til fyrra horfs. Frumvarpið bíður nú undirskriftar ríkisstjórnar svo það verði að lögum. 31 þingmaður samþykkti frumvarpið en 19 greiddu ekki atkvæði, 13 voru fjarstaddir.