<strong>Kuldi</strong> Stillur í Mývatnssveit þar sem gufustrókur frá Kröfluvirkjun steig hátt til lofts í brunagaddi á dögunum.
Kuldi Stillur í Mývatnssveit þar sem gufustrókur frá Kröfluvirkjun steig hátt til lofts í brunagaddi á dögunum. — Ljósmynd/Einar Sveinbjörnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Frostið sem spáð er norðanlands næstu daga verður ekki jafngrimmt og gefið hefur verið til kynna,“ segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Frostið sem spáð er norðanlands næstu daga verður ekki jafngrimmt og gefið hefur verið til kynna,“ segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni. Spár Veðurstofunnar um kuldakast á Norður- og Austurlandi næstu daga eru hressilegar. Skv. útreikningum er gert ráð fyrir því að gaddurinn fari í allt að 40 gráður. Þar er einkum átt við þekkta kuldapolla, svo sem Bárðardal, Mývatnssveit, Hólsfjöll, Möðrudalsöræfi og Jökuldal.

Í veðurspám síðustu daga hefur Mývatnssveit sérstaklega verið nefnd. Sjálfvirkar spár og reiknilíkön gefa til kynna að þar gæti frostið farið í 40 gráður og 20 gráður á Möðrudal á Fjöllum.

Forritin fara á flug

„Það eru engar forsendur fyrir þessu,“ segir Einar Sveinbjörnsson. „Sjálfvirkar spár eiga til að ýkja snöggar hitasveiflur. Þær byggjast á ákveðnum grunnspám sem koma frá reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa í Reading á Englandi. Svokölluð leiðréttingarforrit fara nánast á flug þegar gert er ráð fyrir kuldaskotum. Þetta er til dæmis þekkt um spár við upphaf kuldatíðar í norðanverðri Skandinavíu. Staðreyndin er sú að veðursaga síðustu vikna á Norðurlandi er ekki nema að takmörkuðu leyti inni í forritunum, þótt hún sé stór áhrifaþáttur. Að gaddurinn fari í fjörutíu gráður er alls ekki inni í myndinni.“

Um jólin er gert ráð fyrir norðlægum áttum. Í dag, aðfangadag, verður éljagangur frá Vestfjörðum og um landið réttsælis austur á firði, einkum út til nesja og stranda. Á jóladag gæti þó komið þétt hríð. En síðan fer að kólna. Í innsveitum norðanlands er á öðrum og þriðja degi jóla 20 stiga frost líklegt, en fimm til tíu stig við ströndina.

Metið verður ekki slegið

Þess má geta að kuldamet í sögu íslenskra veðurmælinga er 38 stig á Grímsstöðum á Fjöllum og Möðrudal 21. janúar 1918, á þeim fræga frostavetri. „Og ég get nánast fullyrt að þótt frostköld jól séu framundan verði þetta tæplega aldargamla met ekki slegið,“ segir Einar Sveinbjörnsson.

BÝST VIÐ GÓÐRI MESSUSÓKN ÞRÁTT FYRIR FROSTIÐ

Lífið gott þótt stundum sé kalt

„Mývetningar eru ýmsu vanir og ég reikna með góðri messusókn, jafnvel þótt kalt verði. Hér er yfirleitt stillt og vindkælingin ekki mikil. Tuttugu stiga gaddur kemur varla að sök eða hefur mikil áhrif á kristnihaldið hér,“ segir sr. Örnólfur Jóhannes Ólafsson, sóknarprestur í Mývatnssveit.

Hefðinni samkvæmt verður messað á Skútustöðum á jóladag og hefur bekkurinn þar jafnan verið þétt setinn. „Sjálfsagt slær gufu frá vitum og kinnar verða eplarjóðar þegar fólk gengur til kirkju, en mætingin verður efalaust góð því hefðin hér í sveit fyrir að mæta til jólamessu er afar sterk,“ segir Örnólfur, sem á öðrum degi jóla messar á Þverá í Laxárdal.

Örnólfur hefur þjónað nyrðra í um það bil fimmtán ár. Er nú þegar búinn að skrifa drög að jólaræðum sínum. Segir inntak þeirra liggja í augum uppi; að atburðirnir á Betlehemsvöllum og fæðing frelsarans fyrir tvö þúsund árum sé til vitnis um að lífið sé gott. Breyti þar engu þótt stundum sé kalt í veðri og frost bíti kinnar.