Lilja Mósesdóttir
Lilja Mósesdóttir
Lilja Mósesdóttir þingmaður hyggst ekki gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu næsta vor. Hún sendi frá sér tilkynningu þess efnis um helgina.

Lilja Mósesdóttir þingmaður hyggst ekki gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu næsta vor. Hún sendi frá sér tilkynningu þess efnis um helgina.

Í tilkynningunni kemur meðal annars fram að miklar undirtektir við skoðanir hennar um fjármálakreppuna og lausn hennar hafi orðið þess valdandi að hún bauð sig fram til þings. Hún hafi í raun aldrei ætlað sér að verða þingmaður.

„Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með skort á umbyrðarlyndi á þingi og í pólitískri umræðu gagnvart óhefðbundnum skoðunum og faglegum lausnum á fordæmalausum efnahagsvanda í kjölfar hrunsins.

Persónulegur metnaður hefur oftar en ekki staðið í vegi fyrir samstöðu og samvinnu meðal pólitískra samherja um framgang mikilvægra mála á þingi,“ segir Lilja í tilkynningunni.

Hún er jafnframt þakklát kjósendum, pólitískum samherjum og samstarfsfólki í Samstöðu við málflutning og störf á Alþingi. En segir jafnframt: „Íslenskt samfélag er, þrátt fyrir efnahagshrun, fast í greipum fámenns valdakjarna stjórnmálanna, atvinnulífsins og embættiskerfisins.“