Brattur Thorstein Heins, framkvæmdastjóri Research In Motion, á blaðamannafundi fyrr á árinu. BlackBerry 10 síminn fer á markað í janúar.
Brattur Thorstein Heins, framkvæmdastjóri Research In Motion, á blaðamannafundi fyrr á árinu. BlackBerry 10 síminn fer á markað í janúar. — AFP
Framleiðandi BlackBerry snjallsímans átti heldur betur slæman dag á markaði á föstudag en þá féllu hlutir í Research In Motion (RIM) um 23%. Verðhrunið stafar af því að RIM birti slæmar sölutölur á þriðja ársfjórðungi.

Framleiðandi BlackBerry snjallsímans átti heldur betur slæman dag á markaði á föstudag en þá féllu hlutir í Research In Motion (RIM) um 23%.

Verðhrunið stafar af því að RIM birti slæmar sölutölur á þriðja ársfjórðungi. Dróst salan saman um 47% og nam samtals 2,7 milljörðum dala. Er það í samræmi við skoðanakönnun Thomson Reuters um væntingar markaðsgreinenda.

Notendum BlackBerry sima hefur fækkað um milljón úr 80 milljónum á 2. fjórðungi niður í 79 milljónir á þriðja fjórðungi. Ljósi punkturinn er að sala á PlayBook spjaldtölvunni hefur aukist, nam um 255.000 eintökum á fjórðunginum sem er ekki há tala en þó tvöfalt hærri en á sama tímabili í fyrra.

Á fundi með markaðsgreinendum sagði framkvæmdastjóri RIM, Thorstein Heins, að fyrirtækið hygðist reyna að snúa óheillaþróuninni við með því að lækka verðið á BlackBerry 7 símanum og lækka einnig það þjónustugjald sem símafyrirtækin þurfa að greiða fyrir hvert símtæki.

Skattaívilnanir bjarga

Hagnaður RIM nam 9 milljónum dala á fjórðunginum sem er mikill viðsnúningur frá sama tímabili í fyrra þegar tapið nam 235 milljónum dala. Viðsnúningurinn skýrist þó einkum af skattaívilnunum en án þeirra hefði tapið numið 114 milljónum dala.

Nýr snjallsími BlackBerry 10 er væntanlegur á markað í janúar, ári seinna en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. CNN greinir frá að vonir séu bundnar við að nýja símtækið hressi upp á reksturinn en tæknin í símanum á að geta keppt við aðra risa á markaðinum eins og iPhone og Android.

ai@mbl.is