Urmas Paet
Urmas Paet
Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands, kom hingað til lands í vikunni til að segja Íslendingum hve gott væri að búa í Evrópusambandinu.

Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands, kom hingað til lands í vikunni til að segja Íslendingum hve gott væri að búa í Evrópusambandinu. Hann vill ekki að Íslendingar spyrji að því hvaða ókosti það hefði fyrir landið að ganga í ESB, heldur eigi Íslendingar að spyrja hvers vegna þeir taki ekki þátt og hafi áhrif.

Áhrif Eista innan Evrópusambandsins eru vel kunn. Þau eru ámóta mikil og áhrif Liechtensteina, Jemena og Laosa, en þeir hafa jöfn áhrif og Íslendingar myndu hafa innan sambandsins.

Staðreyndin er auðvitað sú að Eistar eru ekki aðilar að Evrópusambandinu til að hafa áhrif innan þess. Engum, ekki einu sinni íslenskum smáríkjafræðingum eða ráðherrum núverandi ríkisstjórnar, dettur í hug að áhrif spili þar inn í.

Eistar eru aðilar að Evrópusambandinu af skiljanlegum sögulegum ástæðum. Þeir voru innlimaðir í Sovétríkin áratugum saman og gera allt sem í boði er til að minnka líkurnar á að slík hörmungarsaga endurtaki sig.

Staða Íslendinga er allt önnur. Ísland er ekki landfast við stórt ríki sem kynni að hafa áhuga á að seilast til áhrifa með tilheyrandi ógn fyrir sjálfstæði landsins.

Samanburðurinn við Eistland eða önnur nýfrjáls ríki er þess vegna fráleitur og segir ekkert um kosti eða galla mögulegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu.