Kátt er á jólunum, koma þau senn, – þá munu upp líta Gilsbakkamenn, upp munu þeir líta og undra það mest, úti sjá þeir stúlku og blesóttan hest. Í tímaritinu Huld, sem út kom á síðasta áratug 19.

Kátt er á jólunum, koma þau senn,

– þá munu upp líta Gilsbakkamenn,

upp munu þeir líta og undra það mest,

úti sjá þeir stúlku og blesóttan hest.

Í tímaritinu Huld, sem út kom á síðasta áratug 19. aldar, segir um kvæði þetta, að úr því kunni margir enn heila kafla, meira og minna, um land allt, og er haft sem vöggukvæði, enda segi svo í eptirmála við eina uppskriptina: „Fylgir sá kraptur kvæði þessu, að varla er svo rellótt barn, að ekki huggist það og hlýði á með mesta athygli, ef það er kveðið við það af sönglærðum manni og eptir rjettum söngreglum.“ Ég veit dæmi þess, að enn í dag hefur sá siður haldist í fjölskyldum að Gilsbakkaþula sé sungin á jólum, – og er þá áhersla lögð á, að hana verði að syngja undir réttu lagi!

Það hafa margir spreytt sig á að yrkja um jólin og sumir hafa fyrir sið að láta nýja vísu fylgja jólakortum ár hvert. Sigurður Sigurðsson dýralæknir yrkir:

Gleðilega og góða tíð

gefi oss á jólunum

hann sem ávallt ár og síð

endaveltir pólunum.

Eins og flestir vita er Sigurður mikill kvæðamaður, kann ótal stemmur og kveður þær á góðum stundum. Um fjögurra vetra dótturson sinn yrkir hann og fellur línuskipting orðanna vafalaust að hljómfalli og hrynjandi stemmunnar:

Litli Dagur, litli Dagur

ljós og fagur

logar af kæti,

logar af kæti,

léttur á fæti

sínum,

enginn betri,

enginn betri

er á setrum mínum.

Stephan G. Stephansson orti jólavísu til föður dáins drengs:

Þó að jóla fró og frið

fjörs og lífs við höfum

þeir munu búa betra við

sem blunda niðrí gröfum.

Og að síðustu fylgir Jólavísa Jóns Þorsteinssonar á Arnarvatni með jólakveðjum til lesenda Vísnahorns:

Nei, hér er þá dálítil hjörð á beit

og hjarðsveinn á aldri vænum. –

Í hverri einustu Íslands sveit

og afkima fram með sænum

nú stendur hún jólastundin há

með stjörnuna yfir bænum.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is